Vallea kreysti fram sigur á Ármanni

Snorri Rafn Hallsson skrifar
vallea - ármann 10122021

Vallea og Ármann hafa verið á svipuðu róli í deildinni á þessu tímabili með fjóra sigra og fjögur töp hvort. Baráttan við miðju deildarinnar hefur verið hörð og eftir að Þór tapaði tveimur leikjum í röð hefur staðan skyndilega galopnast og möguleikinn á öðru sætinu hleypt spennu í tímabilið. Í fyrri leik liðanna hafði Ármann betur gegn Vallea 16-13 of því var við spennandi leik að búast.

Lið liðanna lá í Inferno kortið þar sem Vallea hafði betur í hnífalotunni og kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Stalz lokaði fyrstu lotunni fyrir Vallea með þremur fellum en Vargur var ekki lengi að leika sama leik í þeirri næstu og jafna metin. Í næstu fimm lotum sem allar féllu Vallea í vil skiptust leikmenn liðsins á að sækja þrjár til fjórar fellur hver gegn ringluðum leikmönnum Ármanns sem virtust eiga í miklum samskiptavanda og gekk hvorki né rak hjá þeim í sókninni. En skjótt skipast veður í lofti og eftir leikhlé hjá Ármanni þéttu þeir raðirnar og komust á skrið. Leikmaður Ármanns, Kruzer, tók heldur betur við sér ásamt Vargi og raðaði Ármann inn lotunum hverri á fætur annarri, oft úr nokkuð ómögulegri stöðu. Leikar voru því heldur jafnir í síðari hálfleik og baráttan hörð.

Staða í hálfleik: Vallea 8 - 7 Ármann

Allt of lítið hafði sést til Ofvirks í fyrri hálfleik en hann er gjarnan lengi í gang. Lét hann þó finna fyrir sér í síðari hálfleik og komst Ármann yfir í stöðuna 10-8. Þrjóska beggja liða gerði það þó að verkum að leikurinn var hnífjafn það sem eftir var og þrátt fyrir að vera oft og tíðum blankir náðu leikmenn Ármanns oft að gera mikið úr lökum vélbúnaði sínum. Sömu sögu var að segja hjá Vallea sem tókst að koma sér aftur yfir í 14-12. Jafnaði Ármann þá aftur og voru stórfengleg augnablikin í síðari hálfleik of mörg til að hér sé hægt að telja þau upp. Aðdáendur CS:GO ættu að gera sjálfum sér greiða og horfa á leikinn hér. Loks tókst Vallea þó að knýja fram sigurinn í þrítugustu lotu og vinna þar með baráttuna um fjórða sætið í þessari umferð.

Lokastaða Vallea 16 - 14 Ármann

Vallea mætir svo Sögu næsta þriðjudag en þá á Ármann erfitt verkefni fyrir höndum þegar liðið tekur á móti Þór. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir