Erlent

Hyggjast bólusetja alla óbólusetta við komuna til Gana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnvöld í Gana eru uggandi um þróun faraldursins þar í landi.
Stjórnvöld í Gana eru uggandi um þróun faraldursins þar í landi.

Stjórnvöld í Gana hyggjast bólusetja alla borgara og íbúa landsins við komuna á flugvöllum frá og með mánudegi, ef þeir hafa ekki þegar þegið bóluefni. Þá verður þeim sem yfirgefa landið gert að framvísa sönnun um bólusetningu.

Aðeins um 5,7 prósent íbúa Gana eru bólusettir en um 30 milljónir búa í landinu. Nýtilkynntar aðgerðir eru meðal þeirra ströngustu í Afríku en lágt bólusetningarhlutfall má hins vegar helst rekja til skort á bóluefnum og vandkvæða við framkvæmd bólusetning.

Patrick Kuma-Aboagye, æðsti yfirmaður heilbrigðisþjónustunnar í landinu, sagði í yfirlýsingu í gær að vegna fjölda nýrra tilfella og greiningar ómíkron-afbrigðisins meðal ferðalanga sem kæmu til landsins erlendis frá, væri nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða.

Bólusetningarátak stendur yfir í Gana nú í desember en frá og með 22. janúar tekur gildi bólusetningarskylda meðal ákveðinna hópa, svo sem opinberra starfsmanna, heilbrigðisstarfsmanna og námsmanna.

Þá mun engin komast inn á staði þar sem fólk safnast saman nema framvísa bólusetningarpassa.

Á síðustu vikum greindust 60 prósent smita í Gana á Kotoka-alþjóðaflugvellinum í höfuðborginni Accra. Þeir sem greindust á vellinum voru þrisvar sinnum líklegri til að vera óbólusettir. 

34 tilvik ómíkron greindust í landinu, þar af 75 prósent meðal óbólusettra.

131.246 hafa greinst með Covid-19 í Gana frá upphafi kórónuveirufaraldursins og 1.228 látist.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×