Leikjavísir

Franklin snýr aftur í GTA og Dr Dre einnig

Samúel Karl Ólason skrifar
Franklin var ein af söguhetjum Grand Theft Auto V sem kom upprunalega út árið 2013.
Franklin var ein af söguhetjum Grand Theft Auto V sem kom upprunalega út árið 2013. Rockstar

Leikjafyrirtækið Rockstar opinberaði í dag nýja uppfærslu við Grand Theft Auto Online sem inniheldur nýja sögu um eina af aðalpersónum upprunalega leiksins og rapparans Dr. Dre. Franklin snýr aftur í leiknum og spilarar þurfa að hjálpa honum og rapparanum að gefa út ný lög.

Þessi nýja saga gerist nokkrum árum eftir sögu GTA V sem kom út árið 2013 og snýst um að Franklin rekur umboðsskrifstofu einhverskonar og tekur Dr. Dre að sér sem skjólstæðing. Spilarar munu í framhaldi þurfa að leysa vandamál þeirra og hjálpa þeim að gefa út lög sem Dr. Dre samdi sérstaklega fyrir leikinn.

Dr. Dre hefur áður komið við sögu í GTA Online en hann birtist óvænt í leiknum vegna Cayo Perico-ránsins í fyrra, samkvæmt frétt Polygon.

Eins og áður segir gaf Rockstar GTA V fyrst út árið 2013. Síðan þá hefur leikurinn, sem er arðbærasta skemmtanaafurð sögunnar, ítrekað verið gefinn út fyrir nýjar og betri leikjatölvur. Hann var fyrst gefinn út á dögum PlayStation 3, uppfærður fyrir PS4 og PC og nú stendur til að uppfæra hann aftur fyrir nýjustu kynslóðina.

Til stóð að gefa uppfærsluna út í nóvember en henni var frestað fram á næsta ár.

Sjá einnig: Gefa GTA V út í nóvember, enn eina ferðina

Rockstar hefur um skeið unnið að gerð GTA 6, samkvæmt fréttaflutningi erlendis, en enn er þó allt of langt í að hann verði gefinn út. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.