Í frétt Sermitsiaq.AG segir að takmarkanirnar höfðu þegar tekið gildi í höfuðborginni Nuuk en ná nú til landsins alls. Þess verður nú krafist að menn sýni fram á bólusetningarvottorð eða neikvætt sýni til að fá aðgang að opinberum stöðum líkt og veitingastaði, kvikmyndahús eða hárgreiðslustofum.
Sömuleiðis er grímuskyldu komið á í öllum bæjum og byggðum þar sem upp hefur komið kórónuveirusmit síðustu fjórtán daga og þar sem uppruni smits er óþekktur.
Þá hefur verið hert á reglum um ferðir innanlands og þurfa ferðalangar nú að sýna fram á bólusetningu eða neikvætt sýni til að komast á milli staða.
Sé fólk ekki bólusett skal það sæta sóttkví í tvær vikur eftir komu eða þá þar til að maður hafi sýnt fram á neikvætt PCR-próf.
321 eru nú í einangrun á Grænlandi vegna Covid-19 og tveir á sjúkrahúsi.