Erlent

Segir kosningarnar að­eins skrípa­leik kín­verskra stjórn­valda

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Law flúði Hong Kong í fyrra eftir umfangsmiklar fjöldahantökur.
Law flúði Hong Kong í fyrra eftir umfangsmiklar fjöldahantökur. Getty/May James

Lýðræðisaðgerðasinninn Nathan Law hefur hvatt fólk til að taka ekki þátt í kosningunum í Hong Kong sem eiga að fara fram 19. desember næstkomandi. Fólk eigi að sleppa því að kjósa og þannig sýna stjórnvöldum að kosningarnar hafi ekkert lögmæti.

Undanfarin tvö ár hefur Hong Kong tekið stakkaskiptum. Öryggislög svokölluð tóku gildi en þau voru innleidd fyrir tilstilli kínverskra stjórnvalda. Héraðið, sem eitt sinn var bresk nýlenda en hefur undanfarin tuttugu ár verið með sjálfsstjórn, hefur með þessi misst meiri og meiri völd til stjórnvalda í Peking. 

Þá voru drastískar breytingar á kosningalögum Hong Kong kynntar í mars af stjórnvöldum í Peking. Breytingarnar felast einna helst í því að færri fulltrúar á þingi Hong Kong eru kjörnir af almenningi og þeim fjölgar sem skipaðir eru af stjórnvöldum í Peking. 

Þá eru frambjóðendur í kosningunum líklega ekki þeir vinsælustu  hjá lýðræðissinnum en allir frambjóðendur hafa verið samþykktir af Peking.

„Hundsið þær bara,“ segir lýðræðissinninn Law í samtali við Reuters. Law er búsettur í Lundúnum í Bretlandi en hann flúði heimahéraðið í kjölfar fjöldahandtaka í fyrra og fékk hæli í Bretlandi. 

„Við skulum ekki gefa þessum kosningum neitt lögmæti eða vægi, við ættum ekki einu sinni að þykjast að þetta séu kosningar - þetta er bara val Peking.“

Enginn hefur enn svarað Law en Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnar Hong Kong, sagði í september að breytingarnar á kosningalögunum væru til að tryggja að stjórnendur Hong Kong „væru ættjarðarvinir.“

Horfa má á hluta úr viðtalinu við Law hér. 


Tengdar fréttir

Amnesty yfirgefur Hong Kong vegna umdeildra öryggislaga

Mannréttindasamtökin Amnesty International tilkynntu það í dag að þau muni loka skrifstofum sínum í Hong Kong vegna umdeildra öryggislaga, sem yfirvöld í Kína komu á í sjálfsstjórnarhéraðinu. Lögin hafa gert mannréttindasamtökum erfitt fyrir að starfa á eigin forsendum, án þess að sæta viðurlögum yfirvalda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×