Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sindri Sindrason les kvöldfréttir klukkan hálf sjö.
Sindri Sindrason les kvöldfréttir klukkan hálf sjö. Vísir/Vilhelm

Stjórnarandstaðan gerir miklar athugasemdir við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem nú er til umræðu á Alþingi og kallar það bráðabirgðafrumvarp. Ekki er víst að þingið nái að ljúka afgreiðslu frumvarpsins fyrir jól. Heimir Már verður í beinni frá Alþingi í fréttatímanum okkar á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan hálf sjö á eftir.

Við ræðum við forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar sem segir það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið ef nýlegur úrskurður Persónuverndar stendur. Sóttvarnalæknir segir úrskurðinn ekki breyta viðhorfi hans til fyrirtækisins, en rannsóknin sem um ræðir var gerð með hans blessun.

Við fáum að vita hvað heimsfaraldurinn hefur kostað heilbrigðiskerfið síðustu tvö ár hér á landi. En heilbrigðisstofnanir hafa fengið þau skilaboð úr heilbrigðisráðuneytinu að spara ekki í baráttu sinni gegn veirunni. - Öllum kostnaði verði mætt.

Maður sem missa mun röddina vegna sjúkdóms finnst ótækt að ekki sé til íslenskur raddbanki, sem gerir fólki kleift að taka upp rödd sína og nota í talgervli. Afar óhefðbundinni fjársöfnun fyrir slíkum raddbanka hefur nú verið hrint af stað.

Í fréttatímanum hittum við þau Grýlu og Leppalúða og kór sem heldur upp á tíu ára söngafmæli með jólatónleikum þar sem verða engin jólalög.

Þetta og margt fleira á samtengdum rásum stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×