Erlent

Æðsti vísindamaður WHO segir óðagot vegna omíkron ótímabært

Samúel Karl Ólason skrifar
Soumya Swaminathan, æðsti vísindamaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Soumya Swaminathan, æðsti vísindamaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. EPA-EFE/FABRICE COFFRINI

Æðsti vísindamaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hvetur fólk til að örvænta ekki né fara í óðagot vegna omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar og of snemmt væri að segja til um hvert gera þyrfti breytingar á þeim bóluefnum sem hafa verið gerð gegn Covid-19.

Soumya Swaminathan segir þar að auki að of snemmt sé að segja til um hvort omíkron-afbrigðið verði ráðandi í heiminum. Hún sagði réttu viðbrögðin við afbrigðinu þau að vera viðbúin og varkár. Ekki í óðagoti.

Þetta segir hún í viðtali við Reuters fréttaveituna sem birt var í dag.

Swaminathan segir delta-afbrigðið yfirráðandi á heimsvísu og 99 prósent þeirra sem smitist af Covid-19 smitist vegna delta-afbrigðis kórónuveirunnar. Omíkron-afbrigðið hafi mikið verk að vinna til að verða yfirráðandi.

Það geti gerst en ómögulegt sé að segja til um það.

Omíkron hefur greinst víða um heiminn en enn ríkir mikil óvissa um afbrigðið. Það er mikið stökkbreytt og því eru taldar líkur á því að það eigi auðveldara með að komast framhjá þeim vörnum sem bóluefni veita fólki. Sömuleiðis er það talið smitast auðveldar manna á milli en vísbendingar eru um að það valdi mildum einkennum og þá sérstaklega meðal bólusettra.

Lítið er þó vitað með vissu og Swaminathan segir erfitt að segja til með það enn.

„Við þurfum að bíða. Vonum að það sé vægara,“ segir hún við Reuters.

Framleiðendur bóluefna eru þegar byrjaðir að undirbúa framleiðslu nýrra bóluefna fyrir omíkron-afbrigðið. WHO hefur hrósað forsvarsmönnum fyrirtækjanna fyrir það.


Tengdar fréttir

Lyf­lækninga­deild lokað: Omíkron ein­angrað við Akra­nes

Lyf­lækninga­deild Sjúkra­hússins á Akra­nesi hefur verið lokað tíma­bundið og eru sjúk­lingar hennar og starfs­fólk í sótt­kví. Beðið er eftir niður­stöðu skimana en sá sem greindist fyrst með omíkron-af­brigði kórónu­veirunnar á landinu var sjúk­lingur á deildinni.

Munum aldrei snúa aftur til tímans fyrir faraldur

Þær fregnir berast frá Suður-Afríku að einstaklingar sem hafi sýkst af omíkron-afbrigði kórónuveirunnar séu mestmegnis með mild og flensulík einkenni. Magnús Gottfreðsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, segir þó of snemmt að segja til um hvort nýja afbrigðið sé vægara en þau fyrri.

Meina óbólusettum aðgang að börum, kvikmyndahúsum og öðru

Ríkisstjórn Þýskalands hefur sett fjölmargar og stórar þúfur í veg óbólusettra Þjóðverja. Angela Merkel, fráfarandi kanslari, og Olaf Scholz, verðandi kanslari, ræddu við ríkisstjóra Þýskalands í dag og samþykktu þau harðar aðgerðir gegn mikilli útbreiðslu Covid-19 í Þýskalandi um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×