Innherji

Frjálsari séreign muni efla verðbréfavitund almennings

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Skilvirkur verðbréfamarkaður felur í sér mikilvægan valkost við fjármögnun fyrirtækja og fyrir sparifjáreigendur að ávaxta fé sitt.
Skilvirkur verðbréfamarkaður felur í sér mikilvægan valkost við fjármögnun fyrirtækja og fyrir sparifjáreigendur að ávaxta fé sitt. VÍSIR/VILHELM

Áform stjórnvalda um að auka frelsi fólks til að ráðstafa séreignarsparnaði eru til þess fallin að auka skilvirkni hlutabréfamarkaðarins og ýta undir frekari vitundarvakningu hjá almenningi. Þetta segja viðmælendur Innherja á markaðinum.

„Þetta mun efla verðbréfavitund almennings þannig að stærri hópur fólks verður meðvitaður um sparnað sinn og mikilvægi þess að huga vel að honum,“ segir Jóhann Möller, framkvæmdastjóri Stefnis. Stefna stjórnvalda sé því framfaraskref í uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins.

Jóhann Möller, framkvæmdastjóri Stefnis.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna segjast flokkarnir ætla að útfæra leiðir til að auka frelsi fólks til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði.

Tillagan er tekin úr skýrslunni Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem var gefin út árið 2018 en þar var lagt til að „viðurkenndum fjárfestingarsjóðum“ yrði gert heimilt að taka að sér ávöxtun séreignarsparnaðar.

Höfundar hvítbókarinnar sögðu að þetta gæti verið eitt áhrifaríkasta skrefið til að fjölga þátttakendum á hlutabréfamarkaði og auka þannig virkni markaðarins sem hafði verið „með eindæmum lítil undanfarin ár“. 

Skilvirkur verðbréfamarkaður fæli í sér mikilvægan valkost við fjármögnun fyrirtækja og fyrir sparifjáreigendur að ávaxta fé sitt.

Halldór Kristinsson, forstöðumaður hlutabréfa hjá Landsbréfum, segir jákvætt að frelsi einstaklinga til að ráðstafa hluta af lífeyrissparnaði sínum verði aukið.

Halldór Kristinsson, forstöðumaður hlutabréfa hjá Landsbréfum.

„Þetta mun líka efla markaðinn þar sem ávöxtun lífeyrissparnaðar mun líklega dreifast á fleiri aðila, þátttakendum á markaði fjölgar og ákvarðanataka verður ekki jafn einsleit.“

Jóhann hjá Stefni segir að undanfarið hafi orðið vitundarvakning gagnvart hlutabréfamarkaðinum. 

„Við sjáum hana endurspeglast í fjölda sjóðsskírteina, veltu á markaði og fjölda hluthafa í félögum. Þessar breytingar yrðu annað skref í átt að því að færa markaðinn nær því sem við sjáum á öðrum Norðurlöndum þar sem velta og fjöldi þátttakenda hefur verið hlutfallslega mun meiri en hér á landi.“

Í nýlegri grein í Kalkofninum, vefriti Seðlabanka Íslands, varpa sérfræðingar bankans ljósi á fjölgun almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði. 

Fjöldi einstaklinga sem áttu hlutabréf árið 2017 var 6.926 en í ágúst á þessu ári var fjöldinn kominn upp í 30.569. 

Þessi mikla fjölgun hefur haft veruleg áhrif á veltu hlutabréfa í Kauphöllinni. Meðalfjöldi daglegra viðskipta í Kauphöllinni var 125 viðskipti á dag árið 2017 og 226 viðskipti árið 2020. Á tímabilinu janúar til ágúst 2021 var meðalfjöldi daglegra viðskipta kominn upp í 385.

Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra, er einn af þeim stjórnmálamönnum sem hafa lýst yfir stuðningi við frjálsari ráðstöfun á séreignarsparnaði. Lilja sagði í viðtali við Markaðinn í byrjun árs að eitt af stóru úrlausnarefnum stjórnvalda á næstu árum væri að fá sparnað landsmanna í meiri mæli inn á verðbréfamarkaðinn.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkt skref yrði til bóta og væri til þess fallið að skapa meiri dýnamík og skoðanaskipti á markaði,“ sagði Lilja.

Lífeyriskaflinn mælist vel fyrir

Lífeyrismál fengu heilan kafla í stjórnarsáttmálanum en á fyrri hluta kjörtímabilsins hyggjast stjórnvöld vinna sérstaka grænbók um lífeyrismál í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði.

Meðal annars verður horft til einföldunar kerfsins og fjallað um grundvallarforsendur varðandi hlutverk, uppbyggingu, sjálfbærni og umfang sjóðanna í efnahagslífinu.

Stjórnvöld stefna meðal annars að því að auka þátttöku lífeyrissjóða í innviðafjárfestingum til að flýta fyrir nauðsynlegum opinberum framkvæmdum sem og nýsköpun og grænum lausnum til að takast á við loftslagsvána.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins. 

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, kveðst ánægður að sjá kafla um lífeyrismálin í stjórnarsáttmálanum og áform um að vinna að grænbók um lífeyrismál á næstu tveimur árum.

„Það er mun eðlilegri tímarammi en áður var stefnt að. Ég vona bara að stjórnin beri gæfu til að stuðla að víðtæku samráði og vinna með öllum haghöfum til að skapa sátt um lífeyriskerfi sem stuðlar í senn að hæfilegum eftirlaunum og sveigjanleika um töku lífeyris,“ segir Gunnar.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×