Sport

Fyrrum heimsmeistari í kúluvarpi látinn aðeins 52 ára gamall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
CJ Hunter og Marion Jones á hápunkti frægðar þeirra þegar hann var heimsmeistari og hún nú búin að vinna Ólympíugull.
CJ Hunter og Marion Jones á hápunkti frægðar þeirra þegar hann var heimsmeistari og hún nú búin að vinna Ólympíugull. Samsett/Getty

Bandaríkjamaðurinn CJ Hunter lést í vikunni en hann var eitt stærsta nafnið í frjálsum á sínum tíma, bæði vegna afreka en ekki síst vegna þáverandi eiginkonu.

CJ Hunter náði aðeins að vera 52 ára gamall en hann hefði haldið upp á 53 afmælið sitt í desember.

CJ Hunter ætti að vera þekktastur fyrir heimsmeistaratitil sinn í kúluvarpi en var líklega mun þekktari fyrir samband sitt við stórstjörnuna Marion Jones og það að hafa fallið á lyfjaprófi rétt fyrir Ólympíuleika.

Hunter kastaði kúlunni lengst 21,87 metra en hann á einnig bronsverðlaun frá HM 1997. Hann hélt báðum þessum verðlaunum.

Hunter varð heimsmeistari í kúluvarpi í Sevilla 1999 og var því sigurstranglegur á Ólympíuleikunum árið eftir. Hann fékk hins vegar aldrei að keppa þar því upp komst um steranotkun hans rétt fyrir leikana.

Fyrst átti Hunter að fá að mæta á leikana sem þjálfari en fljótlega bárust fréttir af því að hann hafði fallið á fjölda lyfjaprófa.

Þau Marion Jones og CJ Hunter voru gift þegar Marion var risastjarna og á leið á Ólympíuleikaan í Sydney árið 2000 þar sem hún vann þrenn gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Jones missti öll þessi verðlaun eftir að upp komst um ólöglega lyfjanotkun hennar.

Áður höfðu þau skilið og þá voru fréttir um að hún vildi ekki tengja sig við lyfjahneyksli hans. Það kom aftur á móti ljós að hún var líka að nota ólögleg efni og viðurkenndi það loks sjálf árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×