Innherji

HÍ kaupir í Carbfix og stofnar fé­lag utan um sprotasafnið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Háskóli íslands mun eiga hlut í tuttugu sprotafyrirtækjum þegar kaupin á hlut í Carbfix ganga í gegn.
Háskóli íslands mun eiga hlut í tuttugu sprotafyrirtækjum þegar kaupin á hlut í Carbfix ganga í gegn.

Háskóli Íslands eignast smávægilegan hlut, ríflega 0,1 prósent, í Carbix, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, með nýrri heimild sem finna má í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2022 sem var lagt fram á Alþingi í gær. Jafnframt er háskólanum heimilt að stofna sérstakt félag utan um eignarhald á rannsóknar- eða sprotafyrirtækjum.

„Ég lít á þetta sem mikið framfaraskref. Við eigum hlut í tuttugu sprotafyrirtækjum en til þess að geta selt hluti í fyrirtækjum höfum við þurft að fá heimild frá Alþingi. Með því að stofna sérstakt félag um eignarhluti háskólans í sprotafyrirtækjum verður auðveldara að eiga viðskipti með þessi félög,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Jón Atli tekur dæmi um íslenska lyfjafyrirtækið Oculis. Bæði háskólinn og Landspítalinn eiga hlut í fyrirtækinu sem var verðmetið á 21 milljarð króna í hlutafjáraukningu sem gengið var frá fyrr á þessu ári.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

„Landspítalinn hefur getað selt hlut í svona félögum en ekki háskólinn. Þetta snýst um sveigjanleika. Ef okkur bjóðast tækifæri þá er mikilvægt að heimildin sé fyrirliggjandi.“

Háskóli Íslands hefur haft það viðmið að ef sprotafyrirtæki er byggt á grunni rannsókna innan háskólans þá er gengið til samninga um að eignarhlutur, að jafnaði 10 prósent af upprunalegu hlutafé, komi á móti.

Nýjasti sprotinn í eignasafni háskólans verður Carbfix sem var stofnað fyrir tveimur árum og hefur verið að fullu í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Verkefnið hófst árið 2007 með það að markmiði að þróa iðnaðarferli til þess að fanga koltvíoxíð úr útblæstri orkuvera og binda það í bergi. 

Alls hafa 13 doktorsnemar varið ritgerðir sínar í tengslum við Carbfix-verkefnið, flestir þeirra frá Háskóla Íslands, en hluti þeirra leiðir nú verkefnið.

Carbfix fékk á dögunum sex hundruð milljóna króna styrk úr nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins til að fjármagna nýja hreinsistöð sem á að gera Hellisheiðarvirkjun nær alveg kolefnishlutlausa á næstu árum. Tækni Carbfix hefur verið hluti af hefðbundnum rekstri Hellisheiðarvirkjunar síðan 2014 og minnkar CO2 útblástur hennar um 30 prósent.

Carbfix vinnur einnig að tveimur öðrum verkefnum í kolefnisföngun og förgun. Annars vegar að svonefndum loftsugum sem fanga koltvísýring beint úr andrúmslofti og hins vegar innflutningi á koltvísýringi á fljótandi formi sem verður fargað í fyrirhugaðri stöð fyrirtækisins í Straumsvík.

Markmið Carbfix er að farga milljónum tonna af koltvísýringi sem er fangaður í Norður-Evrópu og fluttur sjóleiðis til Íslands í förgunarstöð sem nefnist Coda Terminal. Rekstur hennar á að hefjast 2025.

Sprotasafn Háskóla Íslands:

  1. NúnaTrix, stofnað 2019, hyggst þróa tölvuleik sem er ætlað að draga úr hræðslu barna sem eru að fara í skurðaðgerð.
  2. Artica Biosciences, stofnað 2017, sinnir rannsóknum og þróunarstarfi í raunvísindum og verkfræði. Háskóli Íslands á hlut í fyrirtækinu.
  3. Heilsugreind, stofnað 2017,  þróar og selur á hugbúnað og þjónustu sem byggir á notkun viðskiptagreindar á heilbrigðissviði.
  4. Calor, stofnað árið 2016, vinnur að þróun aðferða til að ná fram auknum stöðugleika próteina og peptíða gagnvart hita með því að nota sérvaldar fjölliður og sykrur.
  5. Atmonia, stofnað 2016, vinnur að þróun aðferða þar sem rafmagn eða sólarljós er nýtt til þess að breyta nitri úr andrúmsloftinu og vatni í ammóníak sem síðan má nota til áburðarframleiðslu.
  6. Styrktarfélagið Broskallar, stofnað 2015, safnar fé til kaupa á spjaldtölvum og vefþjónum, fyrir verkefnið Education in a Suitcase. Ókeypis efni er hlaðið á tölvurnar og þær síðan gefnar nemendum á fátækum svæðum, sérstaklega Kenía.
  7. Taramar, stofnað 2010, sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lífrænum og hreinum húðvörum sem hafa þann eiginleika að draga úr sjáanlegum áhrifum öldrunar.
  8. Grein Research, stofnað 2014,  veitir ráðgjöf í efnisvísindum auk þess að þróa og framleiða yfirborðshúðir og tækjabúnaðar vegna nýrra efna.
  9. Capretto, stofnað 2015, þróar örverudrepandi efni úr náttúrulegu fituefni til að vinna m.a. gegn langvinnri skútabólgu (sinusitis).
  10. Fiix greining, stofnað 2013, vinnur að markaðssetningu einkaleyfis á blóðþynningarprófi sem er þróað til að stýra betur lyfjagjöf blóðþynningarlyfsins Kóvar.
  11. Marsýn, stofnað 2012, þróar og markaðssetur upplýsingakerfi fyrir sæfarendur sem spáir fyrir um ástand sjávar svo sem ölduhæð, hitastig, seltu, straum og lagskiptingu frá yfirborði niður á botn, ásamt því að þróa hugbúnað sem spáir fyrir um útbreiðslu fiskistofna.
  12. iMonIT, stofnað 2011, býr til hugbúnað sem snýr að gagnsæi og rekjanleika vöruferla fyrir viðkvæmar vörur, s.s. matvæli. 
  13. Hugarheill, stofnað 2011, vinnur að forvörnum gegn þunglyndi hjá ungmennum.
  14. Risk, stofnað 2009, vinnur að smíði hugbúnaðar í formi áhættureiknivélar sem metur sjálfvirkt áhættu sykursjúks einstaklings á augnsjúkdómum og sjónskerðingu vegna sykursýki.
  15. Lipid Pharmaceuticals, stofnað 2009, vinnur að þróun lyfs gegn hægðartregðu og græðandi smyrsla úr íslensku þorskalýsi.
  16. Oculis, stofnað 2003, vinnur að þróun augnlyfja í formi augndropa með nanóögnum sem auka frásog lyfja inn í augað. Aðferðin gerir það að verkum að hægt er að gefa augndropa í staðinn fyrir lyfjagjöf með nál í auga.
  17. Akthelia, stofnað 2002, vinnur að þróun lyfja sem örva náttúrlegar ónæmisvarnir líkamans til að sigrast á sýkingum.
  18. Oxymap, stofnað  2002, hefur þróað tækjabúnað sem getur metið blóðþurrðarsjúkdóma í augnbotnum með stafrænni myndvinnslu. Tæknin nýtist við meðhöndlun á sykursýki, bláæðastíflum í sjónhimnu og gláku og metur einnig áhrif lyfja- og leysimeðferðar.
  19. Lífeind, stofnað 2001, hefur hannað tækjabúnað og þróað aðferðir til greina gæði flókinna kjarnsýrusýna með tvívíðum rafdrætti í þeim tilgangi að greina DNA-skemmdir.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×