Liðin héldust í hendur fyrstu mínútur leiksins, en það voru gestirnir í La Rioja sem náðu þriggja marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn. Ómar og félagar voru þó fljótir að ná forystunni á ný og fóru með eins marks forskot inn í hálfleikinn, 16-15.
Erfiðlega gekk að skilja liðin að í seinni hálfleik, en heimamenn í Magdeburg voru þó alltaf skrefinu á undan. Liðið náði mest þriggja marka forystu og vann að lokum góðan tveggja marka sigur, 33-31.
Magdeburg er nú í efsta sæti C-riðils með sjö stig eftir fjóra leiki, en liðið er enn taplaust í riðlakeppninni. La Rioja er eina liðið sem hefur tekið stig af Magdeburg, en liðið situr í fimmta sæti C-riðils með þrjú stig.
Ómar Ingi var sem áður segir markahæsti leikmaður Magdeburg með sjö mörk mörk, en ásamt því gaf hann einnig sex stoðsendingar.