Fótbolti

Gaf ekkert upp varðandi lið morgun­dagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þorsteinn á hliðarlínunni í blíðskaparveðri á Laugardalsvelli fyrir ekki svo löngu síðan.
Þorsteinn á hliðarlínunni í blíðskaparveðri á Laugardalsvelli fyrir ekki svo löngu síðan. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag en íslenska kvennalandsliðið mætir Kýpur ytra annað kvöld. Fyrri leik liðanna lauk með 5-0 sigri Íslands.

Þorsteinn gerði fjölmargar breytingar fyrir fyrri leik liðanna en það kom ekki að sök þar sem Ísland var mun sterkar aðilinn og vann sanngjarnan sigur sem var síst of stór. Hann gefur þó lítið upp varðandi byrjunarlið Íslands á morgun.

„Ég er ekki búinn að tilkynna byrjunarliðið, það verður gert eftir æfinguna síðar í dag. Við stillum alltaf upp sterku liði, það skiptir svo sem ekki máli hverjar af þeim spila, við erum alltaf með sterkt lið.“

„Í sjálfu sér ekki, þær verða þéttar, skipulagðar og munu liggja lágt niðri. Ég hef enga trú á öðru,“ sagði Þorsteinn um mótherja morgundagsins og hvort það væri einhver munur á að spila við þær heima eða að heiman.

„Við þurfum að leysa þá hluti, komast á bakvið þær og búa til færi. Við þurfum að stýra leiknum vel, vera rólegar á boltanum og pressa vel þegar við töpunum honum.“

Þorsteinn var aftur spurður út í byrjunarliðið og þá sérstaklega hver myndi standa vaktina í íslenska markinu.

„Ég er ekki búinn að velja byrjunarliðið, ég er ekki búinn að tilkynna það og ég ætla ekki að tilkynna ykkur það fyrst,“ sagði Þorsteinn að endingu og glotti við tönn.

Staðan í riðli Íslands, nýjustu úrslit og næstu leikir. Efsta liðið kemst beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil.

Leikur Íslands og Kýpur hefst klukkan 17.00 á morgun og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×