Körfubolti

Ætlar aldrei að tala um atvikið aftur

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Stewart reynir að verjast í nótt
Stewart reynir að verjast í nótt EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Isiah Stewart, leikmaður Detroit Pistons í NBA deildinni, segist aldrei ætla að ræða það sem gerðist þegar að liðið mætti Lakers á dögunum. Stewart, sem missti sig gjörsamlega eftir olnbogaskot frá LeBron James, var spurður út í atvikið fyrir leik liðsins gegn Atlanta Hawks.

Blaðakonan Melissa Rohlin, sem starfar fyrir íþróttahluta FOX sjónvarpsstöðvarinnar spurði Stewart út í atvikið á blaðamannafundi fyrir leik Detroit gegn Atlanta sem fram fór í gærkvöldi. Stewart fékk tveggja leikja bann fyrir uppátækið og var leikurinn í gær sá fyrsti eftir bannið.

„Þetta verður í síðasta skipti sem ég tala um þetta mál. Ég horfði á myndbandið og alveg eins og ég hef áður sagt, þá líður mér ekki eins og höggið hafi verið óviljaverk“, sagði Stewart sem er greinilega enn mikið niðri fyrir vegna þessa. Hann hélt svo áfram:

„Ég ætla að einbeita mér að mér sjálfum og liðsfélögum mínum, og því að fara aftur út á völlinn að spila körfubolta. Þetta atvik fær ekki að skilgreina hver ég er. Ég ætla að láta ástæðurnar fyrir því að Detroit völdu mig í nýliðavalinu skilgreina mig“.

Það liggur samt alveg fyrir að þrátt fyrir að Stewart vilji ekki tala um þetta örlagaríka kvöld, þá verður hann spurður út í það oftar á tímabilinu. Hann fékk einnig himinháa sekt, 950 þúsund dollara fyrir viðvikið sem nemur um þriðjungi af árslaunum kappans.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×