Innlent

Vara við frost­rigningu og mögu­legri flug­hálku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Varað er við svokallaðri frostrigningu á Suður-og Vesturlandi.
Varað er við svokallaðri frostrigningu á Suður-og Vesturlandi. Vísir/Egill

Aðstæður við suður- og vesturströndina gætu gert það að verkum að von sé á frostrigningu með flughálku. Veðurstofan segir að vegfarendur á þessum slóðum ættu að hafa varan á fram eftir degi.

Fyrripartinn í dag verður úrkomubakki við suður- og vesturströndina með rigningu eða slyddu og sumsstaðar snjókomu í fyrstu á láglendi. Hiti um og yfir frostmarki. Þannig mun snjóa ofurlítið á Hellisheiði, Mosfellheiði og á Snæfellsnesi.

Á láglendi ætti úrkoman vera blautari og jafnvel gæti myndast aðstæður fyrir frostrigningu með flughálku og ætti fólk að hafa varan á fram eftir degi, segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í öðrum landshlutum verður dálítil sjókoma á víð og dreif og vægt frost.

Heldur meiri úrkomu er á sjá fyrir morgundaginn og áfram má reikna með að úrkoman sunnan- og vestanlands falli sem rigning eða slydda og hiti yfirleitt yfir frostmarki á meðan úrkoman fellur sem snjókoma annars staðar og áfram hiti undir frostmarki.

Þessu fylgir almennt fremur hægur vindur.

Veðurhorfur á landinu

Breytileg átt, víða 3-10 m/s, skýjað og dálítil snjókoma á víð og dreif í dag og frost 0 til 7 stig, en rigning eða slydda við SV- og V-ströndina með morginum og fram eftir degi með hita 0 til 5 stig. Vaxandi NV-átt A-til í kvöld.

Suðlæg átt, 5-13 á morgun, víða snjókoma og vægt frost en rigning suðvestantil og hiti 1 til 5 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Suðaustlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og úrkomulítið. Fer að snjóa um og eftir hádegi með 0 til 8 stiga frosti, en rigning við SV- og V-ströndina og hiti 1 til 6 stig.

Á mánudag:

Austlæg eða breytileg átt 5-13 og dálitlar skúrir eða él. 8-15 m/s og snjókoma eða slydda seinnipartinn og frost 0 til 7 stig, en rigning SV-til með 1 til 7 stiga hita.

Á þriðjudag:

Snýst í norðan 8-18 með éljum á N- og A-landi, hvassast við N-ströndina, en styttir upp sunnan heiða. Kólnandi veður.

Á miðvikudag (fullveldisdagurinn):

Minnkandi norðlæg átt og dálítil él, en birtir til eftir hádegi, síst NA-til. Talsvert frost víðast hvar.

Á fimmtudag:

Vaxandi suðaustanátt með snjókomu eða slyddu og hlýnandi veðri, en þurrt NA-til fram eftir degi. Vestan 5-10 og hlánar vestast um kvöldið.

Á föstudag:

Útlit fyrir fremur hæga vestlæga átt með dálítilli ofankomu um mest allt land. Vægt frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×