Knatsspyrnusamband Evrópu, UEFA, sem og knattspyrnusamband Suður-Ameríku, CONMEBOL, eru meðal þeirra sem hafa sett sig á mót breytingum á fyrirkomulagi HM, ásamt því að enska úrvalsdeildin deilir sömu skoðunum. Hins vegar hafa lönd í Afríku stigið fram og sýnt hugmyndinni stuðning.
Afríska knattspyrnusambandið, CAF, varð í dag fyrsta stóra knattspyrnusambandið til að sýna hugmyndinni opinberlega stuðning, en þeir segja að ef ákvörðun yrði tekin um að halda HM á tveggja ára fresti myndi sambandið styðja ákvörðunina heilshugar.
Gianni Infantino segir að það sé eðlilegt að stærstu samböndin séu á móti hugmyndinni þar sem að það gæti ógnað stöðu þeirra á toppnum.
„Þetta gerist alls staðar þegar breytingar eiga sér stað. Þeir sem eru á toppnum vilja ekki breyta neinu af því að þeir eru á toppnum.“
„Kannski eru þeir hræddir um að ef eitthvað breytist sé staða þeirra á toppnum í hættu.“