Fótbolti

Hefur haldið markinu hreinu í fjórum af fyrstu fimm lands­leikjunum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir fagnar sigrinum í gær með þeim Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Ídu Marín Hermannsdóttur.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir fagnar sigrinum í gær með þeim Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Ídu Marín Hermannsdóttur. Getty/Angelo Blankespoor

Hin átján ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir lék sinn fimmta A-landsleik í gær og enn á ný tókst þessum efnilega markverði að halda marki sínu hreinu í íslenska landsliðsbúningnum.

Cecilía Rán hefur haldið markinu hreinu í þremur síðustu leikjum sínum og það eru 288 mínútur síðan skorað var hjá henni í A-landsleik.

Cecilía hefur spilað fimm landsleiki og aðeins fengið á sig eitt mark í þeim. Það mark skoraði Ítalinn Arianna Caruso á 72. mínútu í 1-0 sigri á Íslandi í apríl síðastliðinn. Caruso er leikmaður ítalska stórliðsins Juventus.

Cecilía hélt marki sínu hreinu í fyrsta landsleiknum sínum sem var 4. mars 2020 á móti Norður Írlandi. Landsleikurinn á móti Ítalíu í apríl var hennar annar landsleikur.

Hún hefur síðan haldið markinu í þremur leikjum eða í 2-0 sigri á Írlandi í júní, í 5-0 sigri á Kýpur í október og loks í 2-0 sigrinum á Japan í gær.

Cecilía Rán var að klára sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku með sænska liðinu Örebro en fram undan hjá henni er að færa sig yfir til enska úrvalsdeildarliðsins Everton sem hafði lánað hana til Svíþjóðar.

  • Landsleikir Cecilíu Rán Rúnarsdóttur:
  • 4. mars 2020: Hélt hreinu í 1-0 sigri á Norður Írlandi
  • 10. apríl 2021: Fékk á sig 1 mark í 0-1 tapi á móti Írlandi
  • 15. júní 2021: Hélt hreinu í 2-0 sigri á Írlandi
  • 26. október 2021: Hélt hreinu í 4-0 sigri á Kýpur
  • 25. nóvember 2021: Hélt hreinu í 2-0 sigri á Japan
  • Samtals:
  • 5 landsleikir
  • 1 mark á sig
  • 4 sinnum haldið markinu hreinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×