Erlent

Ætla ekki að verða við kröfu Kína og fjarlægja strandað skip í Suður-Kínahafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Skipinu Sierra Madre var siglt í strand árið 1999 en það var smíðað í Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni. Það er innan tvö hundruð mílna lögsögu Filippseyja.
Skipinu Sierra Madre var siglt í strand árið 1999 en það var smíðað í Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni. Það er innan tvö hundruð mílna lögsögu Filippseyja. AP/Bullit Marquez

Ríkisstjórn Filippseyja ætla ekki að fjarlægja gamalt herskip sem er strand á rifi í Suður-Kínahafi, eins og Kínverjar krefjast. Her Filippseyja hefur notað skipið sem varðstöð á yfirráðasvæði landsins í Suður-Kínahafi sem Kínverjar hafa gert ólöglegt tilkall til.

Áhöfn skips strandgæslu Kína reyndi nýverið að koma í veg fyrir að Filippseyingar kæmu birgðum til þeirra hermanna sem halda til á skipinu og krafðist Kína þess í kjölfarið að skipið yrði fjarlægt.

Eftir að birgðaskip þurftu frá að hverfa í síðustu viku voru fleiri send og tókst þeim að koma birgðum til áhafnar skipsins strandaða, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Rifið Second Thomas Shoal sem skipið BRP Sierra Madre er strandað á er innan tvö hundruð mílna landhelgi Filippseyja. Því var vísvitandi siglt í strand árið 1999 og var markmiðið að ítreka tilkall Filippseyja til Spratly-eyja.

Skipið var smíðað í Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni og var hannað til að flytja skriðdreka á átakasvæði.

Kínverjar gerðu fyrir nokkrum árum tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og þar á meðal hafsvæðis ríkja eins og Filippseyja, Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei. Filippseyjar kærðu Kína fyrir Alþjóðagerðadóminn í Haag, sem komst árið 2016 að þeirri niðurstöður að tilkall Kína væri ólöglegt.

Þrátt fyrir það hafa Kínverjar haldið áfram hernaðaruppbyggingu á svæðinu. Meðal annars hafa þeir byggt heilu eyjurnar, flotastöðvar og flugvelli og komið eldflaugum fyrir á svæðinu.

Reuters fréttaveitan hefur eftir Delfin Lorenzana, varnarmálaráðherra Filippseyja, að kröfur Kínverja séu innihaldslausar. Það séu Kínverjar sem séu þar sem þeir eigi ekki að vera. Samkvæmt alþjóðalögum, sem Kínverjar hafa skrifað undir, tilheyri rifið Filippseyjum.


Tengdar fréttir

Sigldu á ó­þekkt neðan­sjávar­fjall

Kafbátnum USS Connecticut var siglt á neðansjávarfjall sem hafði aldrei verið kortlagt. Minnst tólf sjóliðar slösuðust og kjarnorkukafbáturinn skemmdist töluvert þegar honum var siglt á fjallið í grennd við Suður-Kínahaf í upphafi síðasta mánaðar.

Þrí­höfða sam­komu­lag til höfuðs Kína á Kyrra­hafi

Bandaríkin, Bretland og Ástralía tilkynntu í dag þríhliða öryggissamstarf ríkjanna á Indlands- og Kyrrahafi, sem felur meðal annars í sér að Ástralía komi sér upp kjarnorkuknúnum kafbátum á næstu misserum.

Deila enn og aftur um siglingar um Suður-Kínahaf

Ráðamenn í Kína sökuðu flota Bandaríkjanna um að hafa siglt herskipi inn á yfirráðasvæði þeirra í Suður-Kínahafi. Þeir segja slíkar siglingar ólöglegar en í gær kvörtuðu Kínverjarþegar bandarísku herskipi var siglt í gegnum Taívan-sund og sökuðu þeir Bandaríkin um að valda spennu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×