Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem heimilaði í gær sölu Sýnar og Nova á fjarskiptainnviðunum. Eftirlitið taldi ekki forsendur til að aðhafast frekar í málinu.
Við rannsókn málsins kom í ljós að í öllum tilvikum var um að ræða hagsmuni sem voru minni en 1 prósent af hverri fjárfestingu og Ardian hafði enga möguleika til þess að hafa áhrif á stjórnun eða ákvörðunartöku Digital Bridge.
Samkeppniseftirlitinu bárust ábendingar um að Digital Bridge hefði átt í samstarfi við Ardian um tilteknar fjárfestingar í Bandaríkjunum og í kjölfarið spurði eftirlitið Digital Bridge um möguleg hagsmunatengsl fyrirtækjanna.
„Samkvæmt upplýsingum samrunaaðila er um að ræða minniháttar samstarf og lítil eignatengsl þar sem Ardian eigi hverfandi hlut í þeim verkefnum sem fyrirtækin hafa bæði fjárfest,“ segir í ákvörðun eftirlitsins.
Fram kom í svari Digital Bridge að Ardian væri með nokkrar fjárfestingar hjá Digital Bridge sem væru algjörlega aðskildar, sjálfstæðar og gerðar á markaðskjörum, líkt og við mætti búast þegar kæmi að fjárfestingum stórra, alþjóðlegra eignastýringarfyrirtækja.
Annars vegar ætti Ardian lítinn hlut í innviðafyrirtækinu Zayo, en Digital Bridge hefði farið fyrir viðskiptunum um Zayo ásamt EQT sem sé annað stórt alþjóðlegt eignastýringarfyrirtæki.
Hins vegar hafi Ardian nýlega keypt 1,5 milljarða dollara eignasafn af Northwestern Mutual, sem haldi á réttindum í sjóðum. Þetta eignasafn innihaldi meira en 40 sjóðsfjárfestingar og þar á meðal hagsmuni í tveimur sjóðum Digitial Bridge.
„Að mati Samkeppniseftirlitsins er afar mikilvægt að sjálfstæði þeirra fyrirtækja sem fjárfesta í fjarskiptainnviðum á Íslandi sé tryggt,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
„Hyggst eftirlitið taka þessi tengsl viðkomandi fjárfesta til nánari skoðunar við rannsókn á kaupunum á Mílu.“
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.