Atkvæðagreiðsla fór fram í sænska þinginu rétt í þessu eftir að þingforsetinn tilnefndi Andersson. Í Svíþjóð er málum þannig háttað að meirihluti þingmanna þarf einungis að umbera forsætisráðherrann, það ekki greiða atkvæði gegn honum.
Alls greiddu 117 atkvæði með Andersson, en 174 greiddu atkvæði. 175 þurftu að greiða atkvæði gegn tilnefningunni til að koma í veg fyrir að Andersson tæki við. Mikill fögnuður braust út meðal stjórarþingmannanna eftir að lá fyrir að Andersson myndi taka við embættinu.
Andersson mun leiða minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja, en Miðflokkurinn og Vinstriflokkurinn munu verja stjórnina falli, líkt og flokkarnir gerðu með stjórn Löfvens síðan í sumar. Þó er talið líklegt að Andersson muni þurfa að stýra landinu á fjárlögum borgaralegu flokkanna þar sem Miðflokkurinn hefur tilkynnt að hann muni ekki greiða atkvæði með fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar.
Andersson hefur gegnt embætti fjármálaráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014. Löfven tilkynnti í haust að hann hugðist segja af sér sem forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins í tengslum við flokksþing Jafnaðarmannaflokksins sem fram fór í byrjun þessa mánaðar.
Þar sem Andersson hefur nú tekið við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar gegna fjórar konur nú embætti forsætisráðherra á Norðurlöndum – Andersson í Svíþjóð, Katrín Jakobsdóttir á Íslandi, Mette Frederiksen í Danmörku og Sanna Marin í Finnlandi. Jonas Gahr Støre tók við embætti forsætisráðherra í Noregi af Ernu Solberg í síðasta mánuði.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september á næsta ári.