Þingmenn munu greiða atkvæði um tillöguna á miðvikudagismorgun og þarf þar meirihluti að umbera Andersson, það er ekki greiða atkvæði gegn tillögunni, til að hún taki við embættinu af Stefan Löfven og verði þar með 34. forsætisráðherra Svíþjóðar og fyrsta konan til að gegna embættinu í landinu.
Þingforsetinn Andreas Norlén tilkynnti um þetta á fréttamannafundi í hádeginu, en hann hafði veitt Andersson frest til dagsins í dag til að kanna möguleika á myndun nýrrar stjórnar.
Andersson, sem hefur gegnt embætti fjármálaráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014, greindi Norlén frá því í morgun að ekki hafi náðst samkomulag við formann Vinstriflokksins, en að samtölin hafi verið í „góðum anda“. Hafa flokkarnir helst deilt um lífeyrisgreiðslur sem Vinstriflokkurinn telur vera of lágar. Andersson hefur þó ekki farið fram á lengri frest til viðræðna og því hafi Norlén ákveðið að tilnefna Andersson núna.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september 2022 og telur Andersson rétt að halda viðræðum við Vinstriflokkinn áfram fram að atkvæðagreiðslunni á þinginu á miðvikudaginn.
Ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja hefur síðan í sumar verið varin vantrausti af Miðflokknum og Vinstriflokknum. Hins vegar þarf ný atkvæðagreiðsla um forsætisráðherra að fara fram þar sem Löfven sagði af sér á dögunum.
Þingforseti hefur fjórar tilraunir til að tilnefna forsætisráðherra, en fari svo í atkvæðagreiðslum á þinginu að meirihluti umberi ekki þann sem tilnefndur er þarf að boða til aukakosninga. Þingkosningar munu fara fram í Svíþjóð í september á næsta ári, óháð því hvort komi til aukakosninga.