Körfubolti

Áhorfandi í lúxussæti ældi á völlinn og olli langri töf á NBA leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lyktin var ekki geðsleg og það tók langan tíma að þrífa upp eftir áhorfandann.
Lyktin var ekki geðsleg og það tók langan tíma að þrífa upp eftir áhorfandann. Skjámynd/Youtube

Þetta eru bestu sætin í íþróttunum og kosta líka sitt. Það er hins vegar algjört lykilatriði að fólk þekki sín takmörk eins og kom vel í ljós í NBA-deildinni í körfubolta um helgina.

Löng töf var á leik Sacramento Kings og Utah Jazz í NBA-deildinni eftir að mikið hreinsunarstarf þurfti að fara í gang þegar menn komust að því á óskemmtilegan hátt að einn stuðningsmaður Sacramento Kings liðsins hafði fengið sér aðeins of mikið.

Leikmenn, þjálfarar og áhorfendur hafa líklega aldrei séð annað eins og þetta var ekkert sérlega geðslegt fyrir leikmenn Utah Jazz enda umræddur áhorfandi við hliðina á varamannabekknum þeirra.

Umræddur áhorfandi ældi á völlinn en það mátti allt í einu sjá leikmenn og starfsmenn Utah Jazz yfirgefa bekkinn sinn efir að gusan kom frá áhorfandanum.

Á endanum þurfti að gera fimmtán mínútna hlé á leiknum á meðan starfsmenn hreinsuðu völlinn.

„Þetta var eitthvað,“ sagði Quin Snyder, þjálfari Utah Jazz við staðarfjölmiðilinn KSL News í Salt Lake City. Þar kom einnig að áhorfandinn hafði verið að hreyta í þjálfarann allan leikinn.

„Hann var að hrauna yfir mig allan leikinn eða alla vega fyrstu þrjá leikhlutana,“ sagði Snyder í gríni enda þurfti áhorfandinn að yfirgefa salinn eftir æluna.

Jazz var fjórtán stigum yfir þegar þetta gerðist í upphafi fjórða leikhlutans.

„Ég ætla ekki að reyna að ljúga. Ég einbeitti mér bara að því að forða mér frá bununni,“ sagði Donovan Mitchell, stjörnuleikmaður Utah Jazz.

„Lífið er fullt af óvæntum atvikum. Ég vona að hann sé í lagi. Ég náði augnsambandi við hann og hann var brosandi. Hann var að brosa og æla á sama tíma,“ sagði franski miðherjinn Rudy Gobert.

Starfsmenn hallarinnar fjarlægðu áhorfandann úr salnum og birtu síðan yfirlýsingu á skjánum um að allir of fullir áhorfendur yrðu reknir út húsi. Það má sjá myndir af þessu hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×