Í fyrri verðmötum hafði komið fram að rekstrarkostnaður Regins hefði vaxið umfram verðbólgu. „Virðist nú að sú þróun hafi snúist við og er það afar hughreystandi þar sem sívaxandi kostnaður getur orðið stór flækja til að vinda ofan af.“
Leiguarðsemi Regins hækkar um 0,4 prósent milli ára og er nú 4,8 prósent. Sé miðað við þriðja ársfjórðung 2019 er leiguarðsemi örlítið lægri en þá er hún var 5,0 prósent.
„Hins vegar er þetta hraustur viðsnúningur síðan í fyrra og bendir til þess að leiga sé að hækka og kostnaður að lækka miðað við bókfært virði eigna,“ segir í verðmatinu.
„Reginn hefur verið að selja eignir sem voru ekki í fullri útleigu og í staðinn verið að kaupa eignir sem eiga að skila hærri tekjum. Vafalaust má rekja hækkun leiguarðseminnar til þessa og kostnaðarhagræðis.“
Hertar sóttvarnaraðgerðir hafa tekið gildi á ný en höfundur verðmatsins telur ekki miklar líkur á að þær verði sérstaklega íþyngjandi fyrir Reginn.
„Eignasafn Regins er vel dreift og vel hægt að segja að eggin séu ekki öll í sömu körfunni,“ segir greinandinn og bendir á að þriðjungur eigna Regins séu verslunareignir. Verslun hafi gengið afburðavel í faraldrinum en hótel, sem hafa orðið hvað verst úti, séu aftur á móti afar lítill hluti eigna Regins.
Verðmatsgengi Regins nú 31,1 krónur á hlut samanborið við markaðsgengi upp á 32 krónur á hlut. Munurinn á verðmatsgengi og markaðsgengi er því ekki nema tæp 3 prósent.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.