„Ég held að við séum að horfa lengra fram í tímann,“ segir Ásgeir Jónsson í viðtali við Innherja aðspurður hvort til greina komi að hækka – eða jafnvel afnema – þetta lögbundna hámark á erlendar eignir lífeyrissjóðanna strax um næstu áramót. Vísar hann þar meðal annars til þess að það virðist erfitt að hækka fjárfestingarheimildir þeirra í erlendri mynt án þess að um leið sé kallað eftir heildarendurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Þar hafi aðilar vinnumarkaðarins mjög ólíkar skoðanir.
Ásgeir bendir á að eignir sjóðanna, meðal annars vegna mikill verðhækkana á hlutabréfamörkuðum hér heima og erlendis, hafi hækkað mikið að undanförnu – þær námu samanlagt yfir 6.400 milljörðum í lok september – og því hafi þeir haft svigrúm samhliða því til að auka við fjárfestingar sínar erlendis.
„Þegar ferðaþjónustan kemur til baka af fullum krafti þá verða lífeyrissjóðirnir hins vegar að fara auka við erlendar fjárfestingar í eignasöfnum sínum,“ útskýrir seðlabankastjóri.
Hann bendir á að það sé mikilvægt að lífeyrissjóðirnir leggi engu að síður áherslu á heildarhagsmuni og að fjárfestingar þeirra séu í samræmi við greiðslujöfnuð þjóðarbúsins hverju sinni. Það sé mikill ábati fyrir þá eins og aðra að gengi krónunnar haldist í jafnvægi.
„Til lengri tíma litið væri mun heppilegra að lífeyrissjóðirnir einblíndu á fjárfestingar erlendis, í stað þess að vera of umsvifamiklir á heimamarkaði, en á móti kæmi aukið innflæði til landsins vegna fjárfestinga erlendra fyrirtækja og sjóða,“ segir Ásgeir.
Keypt gjaldeyri fyrir 55 milljarða
Fram kom í Peningamálum Seðlabankans, sem birtust í gær, að hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða hafi numið tæplega 55 milljörðum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins sem er svipað og á árinu 2020.
„Gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna hafa minnkað frá því fyrir faraldurinn en erlendar eignir þeirra hafa vaxið töluvert meðal annars vegna verðhækkana á erlendum eignamörkuðum. Hluti lífeyrissjóða nálgast því fjárfestingarmarkmið um hlutfall erlendra eigna og hefur nýfjárfesting þeirra erlendis því minnkað,“ segir í ritinu.
Forsvarsmenn sumra af helstu lífeyrissjóðum landsins hafa á undanförnum mánuðum og misserum kallað eftir því að lögbundið hámark á erlendar fjárfestingar sjóðanna verði endurskoðað. Þakið sé orðið íþyngjandi fyrir lífeyrissjóðina sem hafa síaukna fjárfestingaþörf – hún er talin vera nettó um 300 milljarðar á ári – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu erlendis.
Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, sagði þannig fyrr á árinu að hún teldi löngu tímabært að taka reglurnar um þak á fjárfestingar sjóðanna í erlendri mynt til gagngerrar endurskoðunar – og þá helst með það fyrir augum að afnema þær alveg.
Í fyrra þegar faraldurinn stóð sem hæst samþykktu lífeyrissjóðirnir að gera samkomulag við Seðlabankann þess efnis að gera hlé á gjaldeyriskaupum sínum vegna fjárfestinga erlendis yfir um sex mánaða tímabil.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.