Handbolti

Sautján ára stelpa með þrefalda tíu í Olís deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir er fædd árið 2004 en er þegar farinn að spila stórt hlutverk hjá Haukaliðinu í Olís deildinni.
Elín Klara Þorkelsdóttir er fædd árið 2004 en er þegar farinn að spila stórt hlutverk hjá Haukaliðinu í Olís deildinni. Vísir/Hulda Margrét

Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir átti frábæran leik þegar Haukaliðið vann sannfærandi níu marka sigur á Stjörnunni í sjöundu umferð Olís deildar kvenna í handbolta um helgina.

Haukakonur höfðu tapað þremur leikjum í röð og þurftu því virkilega á sigri að halda til að rjúfa þá taphrinu.

Hin sautján ára gamla Elín Klara gerði heldur betur sitt á báðum endum vallarins.

Elín Klara náði því afreki að fá þrefalda tíu fyrir frammistöðu sína. Hún fékk tíu fyrir sóknarleikinn, tíu fyrir varnarleikinn og tíu af tíu mögulegum fyrir heildarframmistöðu sína.

Elín Klara skoraði níu mörk úr tíu skotum í leiknum en ekkert þeirra kom af vítalínunni. Hún skapaði einnig fjögur færi fyrir liðsfélaga síns, gaf tvær stoðsendingar og fiskaði eitt víti.

Elín gaf tóninn í upphafi leiks en hún skoraði tvö mörk og gaf stoðsendingu þegar Haukarnir komust í 3-0. Eftir þessa byrjun var ljóst að Haukastelpurnar voru mættar í Mýrina til að sækja bæði stigin.

Þegar kom að varnarleiknum þá var hún með ellefu löglegar stöðvanir og tvo stolna bolta.

HBStatz tölfræði gaf henni umrædda þrefalda tíu fyrir þessar flottu tölur.

Elín Klara sprakk út í þessum leik en hún hafði skorað fjórtán mörk samanlagt í fyrstu sex leikjum sínum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×