Erlent

Nærri sjö­tíu fangar drepnir í fangelsi í Ekvador

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Blóðug átökin stóðu lengi yfir.
Blóðug átökin stóðu lengi yfir. AP/Sanchez

Blóðug átök brutust út í fangelsi í Ekvador í gær en 68 létu lífið og yfir 25 særðust í átökunum, sem hófust um kvöldmatarleyti á föstudag.

Óeirðirnar fóru fram í fangelsi í borginni Guayaquil, en stjórnvöld segja átökin tengjast uppgjöri milli gengja. Fangar réðust hver gegn öðrum með sveðjum, en fljótt bættust byssur og sprengiefni við í átökin. Myndbönd hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum, sem sýna lík á víð og dreif um fangelsið.

Skothríðin stóð yfir í um átta klukkutíma, þar til loks tókst að stilla til friðar. Stuttu eftir að lögreglu tókst að stöðva átökin, braust fljótlega út bardagi milli fanga í annarri álmu fangelsisins. Um níu hundruð lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum.

Aðeins tveir mánuðir eru síðan 119 manns létu lífið í gengjastríði í fangelsinu, en fangelsið hýsir meira en átta þúsund fanga. Hátt í þrjú hundruð fangar hafa fallið í sambærilegum átökum á þessu ári. AP News greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×