Körfubolti

Töpuðu naumlega annað kvöldið í röð í Staples Center

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Bledsoe skorar fyrir Los Angeles Clippers á móti Miami Heat í nótt.
Eric Bledsoe skorar fyrir Los Angeles Clippers á móti Miami Heat í nótt. AP/Marcio Jose Sanchez

Los Angeles Clippers hélt sigurgöngu sinni áfram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt eftir sigur á liði Miami Heat í æsispennandi leik.

Paul George skoraði 27 stig þegar Los Angeles Clippers vann 112-109 sigur á Miami Heat en þetta var sjötti sigur Clippers manna í röð. Reggie Jackson skoraði 22 stig og var öruggur á vítalínunni í lokin og Eric Bledsoe var með 21 stig.

Miami Heat var að spila í Staples Center í Los Angeles annað kvöldið í röð. Kvöldið áður tapaði liðið í framlengingu á móti Los Angeles Lakers en núna réðust úrslitin á síðustu sekúndunum þegar Miami töpuðu boltanum í lokasókn sinni.

Miami náði sautján stiga forystu í leiknum en missti hana frá sér og varð því að sætta sig naumt tap í Los Angeles borg annað kvöldið í röð.

Ben Adebayo var með 30 stig og 11 fráköst fyrir Miami, Kyle Lowry skoraði 25 stig og Tyler Herro var með 23 stig. Heat liðið lék án Jimmy Butler í leiknum en hann meiddist á móti Lakers kvöldið áður.

Kórónuveiran hefur farið illa með lið Philadelphia 76ers síðustu daga en liðið mætti enn á ný vængbrotið til leiks í 115-109 tapi á heimavelli á móti Toronto Raptors.

Joel Embiid, Isaiah Joe og Matisse Thybulle eru allir frá keppni vegna veirunnar og þá er Seth Curry meiddur og svo Ben Simmons hvergi sjáanlegur. Tobias Harris snéri aftur eftir COVID-19 pásu og skoraði 19 stig. Tyrese Maxey var stigahæstur hjá Sixers með 33 stig.

Fred VanVleet skoraði 32 stig fyrir Toronto liðið og alls sex þrista en Gary Trent Jr. var með 20 stig. Báðir skoruðu þeir þristar á síðustu sjötíu sekúndum leiksins. OG Anunoby var einnig með 20 stig.

Malcolm Brogdon skoraði 30 stig þegar Indiana Pacers vann 111-100 útisigur á Utah Jazz en þetta var fyrsta tap Utah liðsins á heimavelli á tímabilinu.

Donovan Mitchell skoraði 26 stig og Rudy Gobert var með 19 stig og 11 fráköst fyrir Utah en voru líka báðir í hópi þeirra fjögurra leikmanna sem voru reknir út úr húsi í fjórða leikhlutanum.

T.J. McConnell kom með 21 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar inn af bekknum fyrir Indiana og Myles Turner var með 13 stig og 9 fráköst. Þetta var aðeins annar útisigur Pacers liðsins á tímabilinu. Turner var einn af þeim sem var rekinn út eftir læti og slagsmál við Gobert.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×