Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands en samningamál talnameinafræðinga hafa verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu þar sem langir biðlistar hafa myndast.
Rammasamningur um þjónustu talmeinafræðinga við ríkið rann út síðasliðinn febrúar og síðan þá hefur hann framlengst um einn mánuð í senn. Erfiðlega hefur gengið að fá niðurstöðu í viðræðunum en helsta ágreiningsefnið er ákvæði um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga
Samningaviðræðum Sjúkratrygginga um þjónustu talmeinafræðinga hefur verið hætt tímabundið á meðan vinna starfshópsins fer fram en hann á að skila af sér tillögum innan fárra vikna, eða í síðasta lagi fyrir lok þessa árs.
Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum frá þremur ráðuneytum: heilbrigðisráðuneyti, félags- og barnamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Mun hann kalla til hagaðila eins og sveitarfélög eða samtök þeirra og talmeinafræðinga til samráðs við gerð tillagnanna.
„Ríkur vilji er af hálfu allra aðila til að finna lausn sem tryggi greiðan aðgang að þessari þjónustu til framtíðar en fjöldi barna er nú á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðinga. Helsti ásteytingarsteinninn er ákvæði um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga,“ segir í tilkynningunni.
„Sjúkratryggingar hafa áður lýst vilja til að endurskoða ákvæðið en hafa bent á að það mynd leiða til þess að greiðslur vegna þjónustu talmeinafræðinga rúmist ekki lengur innan þeirra fjárveitinga sem Alþingi hefur ákveðið. Grípa þurfi til annarra aðgerða á móti svo fjárveitingarnar hrökkvi til.“