Innlent

„Það er allt að springa hérna“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir, deildarstjóri covid-göngudeildar.
Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir, deildarstjóri covid-göngudeildar.

Deildarstjóri Covid-göngudeildar óttast að Landspítalinn hætti að ráða við álagið með áframhaldandi fjölgun smitaðra í samfélaginu og telur að grípa þurfi til hertari aðgerða svo staðan verði ekki eins slæm og víða annars staðar í Evrópu. Metfjöldi greindist með kórónuveiruna innanlands í gær.

„Mér finnst þetta bara vera mjög alvarleg staða, það er allt að springa hérna hérna út af þessu og það virðist eins og það þurfi að loka meiru til þess að smitum hætti að fjölga svona,” segir Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir, deildarstjóri Covid-göngudeildar.

Frá 1. nóvember hafa 958 manns greinst smitaðir af Covid19 hér á landi eða um 136 manns á dag að meðaltali. Þar af greindist metfjöldi í dag, eða 168 manns.

„Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Það er mjög kvíðvænlegt að við náum ekki að ráða við þetta, það yrði bara hræðilegt ef við gætum ekki ráðið við þetta. Þó við reynum allt sem við getum og stöndum hér allan daginn og allt kvöldið að ef við lendum í þeirri stöðu að við getum ekki ráðið við þetta – það er ekki staða sem við viljum lenda í,” segir Sólveig.

„Maður hefur heyrt sögur erlendis frá af svoleiðis aðstæðum og við viljum það bara ekki hér, það er bara svoleiðis.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×