Innlent

Refa­veiðar orðnar að launaðri sport­veiði og for­sendur fyrir veiðum brostnar

Atli Ísleifsson skrifar
Greiðslur til refaveiðimanna námi 134 milljónum króna á síðasta ári en þá voru um 7.200 refir veiddir.
Greiðslur til refaveiðimanna námi 134 milljónum króna á síðasta ári en þá voru um 7.200 refir veiddir. Getty

Umhverfisstofnun telur að forsendur fyrir refaveiðum séu brostnar og að rétt sé að þróa nýtt fyrirkomulag varðandi veiðarnar, meðal annars með tilliti til fuglaverndar. Tilgangur veiða var að vernda búfé en það virðist ekki eiga við lengur og séu veiðarnar orðnar að „vana eða launaðri sportveiði“.

Þetta kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við sérfræðing Umhverfisstofnunar í veiðistjórnun, Steinar Rafn Beck Baldursson. Kemur fram að síðasta ár hafi verið metár í refaveiðum og að kostnaður hins opinbera aukist á hverju ári.

Í frétt blaðsins segir að rúmlega 56 þúsund refir hafi verið veiddir síðasta áratuginn. Nemi kostnaður ríkis og sveitarfélaga tæpan milljarð króna síðasta áratuginn, en skotveiðimenn fá ákveðna upphæð fyrir hvert skott. Námu greiðslur til refaveiðimanna 134 milljónum króna á síðasta ári en þá voru um 7.200 refir veiddir.

Haft er eftir Steinar Rafni að ekki berist lengur tilkynningar um tjón á búfé vegna refa, líklegast þar sem kindur séu hættar að bera úti. Hann segir að tilkynningar vegna refa nú helst berast frá æðarbændum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×