Lífeyrissjóður verslunarmanna tilkynnti í gær að vegna þess hve ávöxtun eigna hafi verið góð undanfarin ár sé hægt að hækka lífeyrisgreiðslur um 10%.
Ellilífeyrisþegar fá þó ekki hækkunina beint í vasann og þá skiptir máli frá hverjum og hversu háar greiðslur þeir fá fyrir hækkunina. Þannig skerðist greiðslan hjá ellilífeyrisþega sem er með fimm hundruð þúsund krónur samanlagt frá Tryggingastofnun og Lífeyrissjóði um ríflega 73%. Þannig að í stað þess að fá 50 þúsund krónur fær hann eftir skerðingu aðeins ríflega 13 þúsund krónur.

Greiðslur til einstaklings sem fær ekki lífeyri frá Tryggingastofnun en er aðeins með greiðslur frá lífeyrissjóðum upp á 617 þúsund krónur skerðast hins vegar aðeins um skattprósentuna eða tæplega 38%. Þannig að sá aðili fær ríflega 38 þúsund krónur af 61.700.
Ingibjörg Sverrisdóttir formaður Félags eldir borgara segir þetta ótrúlegar skerðingar fyrir fólk, sérstaklega fyrir þá sem eru með lágar greiðslur.
„Þeir sem eru með blandaðar tekjur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun þeir fá skerðingu eins og áður. Sá sem er þannig að fá hækkun frá Lífeyrissjóði Verslunarmanna um 20 þúsund krónur heldur eftir um fimm þúsund krónum á mánuði þegar búið er að reikna alla skatta og skerðingar,“ segir hún.
Lífeyrissjóður Verslunarmanna greiddi einnig út eingreiðslu sem var að meðaltali um 76 þúsund krónur á hvern ellilífeyrisþega. Þar kemur líka til skerðingar hjá þeim sem fá greiðslu frá Tryggingastofnun en þeir fá aðeins um 60% upphæðarinnar í vasann.
„Þarna kom líka fram heilmiklar skerðingar sem Tryggingastofnun tekur til sín,“ segir hún
Hún segir þetta enn og aftur sýna hversu ósanngjarnar skerðingarnar virka.
„Við í Gráa hernum erum náttúrulega í málaferlum vegna þessara skerðinga og erum bara að bíða eftir því hvernig það kemur út,“ segir hún.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segist reiðubúinn að skoða þessi mál.
„Þetta er eitt af því sem við vorum að skoða á síðasta kjörtímabili. Þá er þetta eitt af því sem allir stjórnmálalokkar ávörpuðu fyrir síðustu kosningar. Þannig að ég hef trú á því að við stígum einhver skref verði farin en hver þau verða kemur bara í ljós í þeirri ríkisstjórnarmyndun sem nú er í gangi,“ segir Ásmundur.