Fótbolti

Heiðar Ægisson hefur spilað sinn síðasta leik með Stjörnunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Ægisson í baráttunni við Birki Má Sævarsson í leik í Pepsi Max deild karla.
Heiðar Ægisson í baráttunni við Birki Má Sævarsson í leik í Pepsi Max deild karla. Vísir/Bára

Heiðar Ægisson mun ekki spila með Stjörnunni í Pepsi Max deild karla í fótbolta næsta sumar.

Stjarnan gaf það út í morgun að bakvörðurinn hafi ákveðið að róa á önnur mið.

Heiðar er 26 ára gamall og hefur spilað allan sinn feril með Stjörnunni. Hann hefur skorað 2 mörk í 128 leikjum fyrir Stjörnuna í efstu deild en er einnig með 20 stoðsendingar.

Heiðar varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni en í sumar lék hann sitt áttunda tímabil með liðinu í úrvalsdeild karla.

Aðeins fjórir leikmenn hafa gefið fleiri stoðsendingar fyrir Stjörnuna í efstu deild en það eru þeir Hilmar Árni Halldórsson, Halldór Orri Björnsson, Guðjón Baldvinsson og Veigar Páll Gunnarsson.

Heiðar er fjórði leikjahæsti Stjörnumaðurinn í efstu deild.

Í yfirlýsingu Stjörnunnar segir að Heiðar hafi átt stóran þátt í velgengni félagsins á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×