Innlent

Vikið úr lands­liði í hesta­í­þróttum vegna kyn­ferðis­brots

Árni Sæberg skrifar
Knapa hefur verið vikið úr landsliðinu í hestaíþróttum.
Knapa hefur verið vikið úr landsliðinu í hestaíþróttum. Vísir/Vilhelm

Stjórn Landssambands hestamannafélaga og landsliðsnefnd hafa vikið einum landsliðsmanni úr landsliðshópi Íslands í hestaíþróttum. Ástæðan er refsidómur sem landsliðsmaðurinn fyrrverandi hefur hlotið fyrir kynferðisbrot.

Í tilkynningu frá stjórn Landssambands hestamannafélaga segir að upplýsingar um refsidóm landsliðsmannsins séu nýtilkomnar og að hvorki stjórn sambandsins né landsliðsnefnd hafi verið kunnugt um dóminn.

Þá segir að stjórn sambandsins telji óverjandi að þeir sem hafi gerst sekir um og eða hlotið refsidóm fyrir alvarlegt kynferðisbrot séu í landsliðshópnum og komi fram sem fulltrúar sambandsins fyrir Íslands hönd, hvort sem er hér á landi eða á erlendri grundu. 

Slíkt sé til þess fallið að skaða ímynd sambandsins, landsins og hestaíþróttarinnar í heild, einnig sé það andstætt þeim gildum sem sambandið stendi fyrir. Sambandið taki skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi.

Jafnframt segir að samkvæmt lögum Íþrótta- og ólympíusamband Íslands sé óheimilt að velja einstaklinga sem hlotið hafa refsidóma vegna kynferðisbrota til starfa innan íþróttahreyfingarinnar, það gildi bæði um þá einstaklinga sem starfa sem sjálfboðaliðar og launþega. Landssambands hestamannafélaga sé sérsamband innan ÍSÍ og stjórn þess hafi litið til laga ÍSÍ við ákvörðunartöku í málinu.

Að lokum segir að á vettvangi sambandsins og ÍSÍ fari nú fram vinna við endurskoðun reglna og umgjarðar er varðar ofbeldis- og kynferðisbrot og hvaða skilyrði iðkendur þurfi að uppfylla sem keppa fyrir hönd sambandsins.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×