Körfubolti

Sektaður fyrir að kasta bolta upp í stúku

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kevin Durant þarf að opna veskið.
Kevin Durant þarf að opna veskið. Mike Stobe/Getty Images

Körfuboltamaðurinn Kevin Durant, sem leikur með Brooklyn Nets í NBA-deildinni, hefur verið sektaður um 25.000 Bandaríkjadali fyrir að henda boltanum upp í stúku í sigri liðsins gegn Indiana Pacers aðfaranótt laugardags.

Durant og félagar unnu nauman sjö stiga sigur gegn Pacers, 105-98. Í þriðja leikluta brást leikmaðurinn illa við þegar brotið var á honum og fleygði boltanum upp í stúku.

Þegar deildin skoðaði atvikið aftur í endursýningu sögðu þeir að líklega hefði Durant átt að fá útilokun frá leiknum, en dómarar leiksins mátu það ekki svo að hann hafi kastað boltanum af afli og því fékk Durant að halda leik áfram.

Í viðtali eftir leik sagðist Durant hafa ætlað sér að kasta boltanum í spjaldið en ekki hitt. Hann viðurkennir þó að hann viti vel að hann megi ekki láta svona.

„Ég hélt að ég væri einn í salnum eða í áhugamannaleik, ekki NBA-leik. Ég má ekki gera þetta því ég hefði getað kostað liðið mitt leikinn. Þetta gerist ekki aftur. Vonandi.“



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×