Innlent

Leiðrétting frá Þórólfi: Níu fullbólusett börn greinst með Covid-19

Atli Ísleifsson skrifar
Frá bólusetningu barna í Laugardalshöll í ágúst síðastliðinn.
Frá bólusetningu barna í Laugardalshöll í ágúst síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Níu af rúmlega 12 þúsund fullbólusettum börnum á aldrinum tólf til fimmtán ára hafa greinst með Covid-19, eða 0,07 prósent. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir frá þessu og leiðréttir þar með upplýsingar sem bárust frá heilbrigðisráðuneytinu fyrr í vikunni þar sem sagði að ekkert barn í umræddum hópi hafi greinst með Covid-19.

Þórólfur segir í færslu á síðunni Covid.is að „vegna tæknilegra vandamála“ hafi komið í ljós að fyrri upplýsingar væru ekki réttar. „Af um rúmlega 12.000 fullbólusettum börnum 12-15 ára þá hafa 9 greinst með COVID-19 eða 0,07%.

Til samanburðar þá hafa um 3.750 af um 266.000 fullbólusettum einstaklingum eldri en 15 ára greinst með COVID-19 (1,4%).

Vísbendingar eru því um að bólusetning barna kunni að vera áhrifaríkari en bólusetning fullorðinna til að koma í veg fyrir smit af völdum COVID-19.

Ákvörðun um bólusetningu barna yngri en 12 ára hefur ekki verið tekin enda hafa engin bóluefni verið samþykkt hér á landi fyrir börn á þeim aldri. Bóluefni frá Pfizer er nú umsóknarferli hjá Lyfjastofnun Evrópu og er von á niðurstöðu í desember 2021,“ segir Þórólfur.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins á mánudaginn sagði að hingað til hafi 64 prósent barna á aldrinum tólf til fimmtán ára verið fullbólusett en bólusetning þeirra hófst síðastliðinn ágúst.


Tengdar fréttir

Ekkert fullbólusett barn smitast hér á landi

Ekkert fullbólusett barn á aldrinum tólf til fimmtán ára hefur greinst smitað af Covid-19 hér á landi en þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Er það í takt við rannsókir sem gerðar voru með bóluefni Pfizer þar sem vörnin reyndist 100 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×