Sport

Atlanta Braves í úrslit MLB deildarinnar | Mæta óvinsælasta liði Bandaríkjanna

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Atlanta Braves komust í úrslit í nótt
Atlanta Braves komust í úrslit í nótt EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Þá er ljóst hvaða tvö lið munu mætast í heimsseríunni í bandarísku hafnaboltadeildinni, MLB. Atlanta Braves sigraði Los Angeles Dodgers í nótt, 4-2, og þar með seríuna í sex leikjum. Atlanta mætir hinu óvinsæla Houston Astros, sem sló út Boston Red Sox.

Atlanta Braves unnu sigur í Þjóðardeildinni(NLCS) en Houston Astros í Ameríkudeildinni(ALCS). Heimsserían hefst á þriðjudaginn kemur en það er Atlanta sem hefur heimavallarréttinn og því verður fyrsti leikurinn á þeirra heimavelli.

Flestir höfðu spáð ríkjandi meisturum Dodgers áfram gegn Atlanta og til að mynda spáðu einungis 2 af 36 sérfræðingum fréttamiðilsins ESPN því að Atlanta færi alla leið í úrslitin. Þetta er fyrsta heimsserían sem Atlanta tekur þátt í síðan 1999.

Houston komust í úrslit eftir sigur á Boston Red Sox í sex leikjum, 4-2. Houston hefur verið með frábært lið í nokkur ár og komist í úrslit Ameríkudeildarinnar fjórum sinnum síðan 2016.

Houston Astros hefur í nokkurn tíma verið kallað óvinsælasta íþróttalið Bandaríkjanna. Það kom til vegna þess að liðið var ásakað um svindl tímabilin 2017 og 2018. Houston varð meistari 2017. Liðið nýtti sér myndbandstækni til þess að skoða merkingar fyrir köst andstæðinga. Það er þó ekki búið að sýna fram á að liðið hafi grætt á uppátækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×