Fótbolti

Lands­liðs­þjálfarinn vildi ekki að Guð­ný myndi senda boltann fyrir markið

Sverrir Mar Smárason skrifar
Guðný Árnadóttir lék í stöðu hægri bakvarðar í kvöld.
Guðný Árnadóttir lék í stöðu hægri bakvarðar í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður, og Þorsteinn Halldórsson, þjálfari, mættu á blaðamanna fund að loknum kvennalandsleik Íslands og Tékklands á Laugadalsvelli í kvöld. 

Leiknum lauk með 4-0 sigri Íslands en leikurinn var annar leikur íslenska liðsins í undankeppni fyrir HM kvenna árið 2023.

Guðný Árnadóttir spilaði sinn tólfta landsleik en var aðeins í annað sinn í stöðu hægri bakvarðar. Hún átti góðan leik og lagði meðal annars upp síðasta mark Íslands sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði, skoraði.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari, var spurður út í frammistöðu Guðnýjar á fundinum og þegar blaðamaður minntist á stoðsendinguna hló Glódís Perla.

„Ég met frammistöðu hennar bara vel, hún er að þróast og þroskast og ég er bara sáttur með hana. Við erum að fá flotta hluti frá henni og hún á bara eftir að verða betri,“ sagði Þorsteinn áður en Glódís Perla tók við og spurði hvort þjálfari sinn ætlaði ekkert að minnast á það sem hann sagði. 

Þorsteinn neitaði svo Glódís útskýrði sjálf.

„Heyriði ekkert í Steina þarna á hliðarlínunni eða? Rétt fyrir ‚assistið‘ þá heyrðist bara NEEEEEEI, GEFÐU HANN ÚT,“ sagði Glódís og salurinn hló en líkt og fyrr segir lagði Guðný með þessari sendingu upp loka mark íslenska liðsins. 

Glódís Perla bætti svo við „hún tekur allavega sínar eigin ákvarðanir, ég er ánægð meða hana.“ Hún var svo spurð út í það hvernig henni finnist Guðnýju ganga að fóta sig í nýrri stöðu.

„Hún er klárlega öruggari, mér finnst hún búin að venjast þessu ótrúlega hratt. Þetta er auðvitað bara annar leikurinn sem hún er að spila þarna og þvílíkur stígandi bara með hverri mínútunni. Mér finnst hún ótrúlega flott og stendur sig ótrúlega vel. Svo er hún líka leiðtogi og talar mikið og er örugg á sínu,“ sagði Glódís Perla um Guðnýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×