Manchester United kom til baka og vann Atalanta 3-2 á Old Trafford í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa verið 0-2 undir í hálfleik. Aftur tryggði Cristiano Ronaldo sigur Man Utd sem er óvænt komið á topp F-riðils Meistaradeildarinnar.
Það byrjaði ekki byrlega hjá heimamönnum í kvöld en gestirnir frá Ítalíu voru mun betri aðilinn í upphafi leiks. Eftir aðeins stundarfjórðung komst Atalanta yfir þegar Davide Zappacosta átti fyrirgjöf frá hægri sem Mario Pašalic stýrði í netið af stuttu færi.
Það var ekki hálftími liðinn þegar Merih Demiral stangaði hornspyrnu Teun Koopmeiners í netið og staðan orðin 2-0. Eftir þetta lögðust heimamenn til baka og vörðu fenginn hlut. Marcus Rashford setti knöttinn í slána í blálok fyrri hálfleiks en gestirnir voru enn tveimur mörkum yfir er flautað var til loka hálfleiksins.
Það voru aðeins sjö mínútur liðnar þegar Rashford minnkaði muninn fyrir heimamenn. Hann fékk sendingu frá Bruno Fernandes, lagði boltann fyrir sig og stakk honum í hægra hornið. Staðan orðin 1-2 og heimamenn eygðu von á annarri Meistaradeildar-endurkomu.
Klukkan tifaði áfram og það var aðeins stundarfjórðungur eftir þegar jöfnunarmarkið kom loksins. Í millitíðinni hafði David De Gea varið meistaralega og þeir Paul Pogba, Edinson Cavani og Jadon Sancho höfðu allir komið inn af bekknum.
Eftir að hornspyrna Fernandes var hreinsuð frá hélt Sancho boltanum inn á og gaf á Fernandes sem negldi tuðrunni fyrir markið. Bolti sleikti faxið á Cavani og endaði hjá Harry Maguire sem lúrði á fjærstönginni. Maguire – öllum að óvörum – þrumaði knettinum í netið og jafnaði metin í 2-2.
Hans fyrsta Meistaradeildarmark og heimamenn trúðu nú enn frekar á að þeir gætu nælt í þrjú stig. Og viti menn, sigurmarkið kom aðeins sex mínútum síðar og að sjálfsögðu var það Portúgalinn geðþekki – Cristiano Ronaldo – sem tryggði sigurinn og hélt vonum Man United um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á lífi.
Aftur áttu heimamenn hornspyrnu, aftur var spyrna Fernandes hreinsuð frá. Aftur fékk Fernandes boltann og átti fyrirgjöf, sú var hreinsuð frá og endaði hjá Luke Shaw. Hann tók 1-2 við Fred og gaf fyrir markið þar sem Ronaldo kom aðsvífandi og stangaði boltann í netið.
Staðan orðin 3-2 og voru það lokatölur í ótrúlegum leik á Old Trafford í kvöld. Manchester United er þar með komið á topp F-riðils með sex stig. Atalanta og Villareal eru með fjögur stig á meðan Young Boys er á botninum með þrjú stig.
Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.