Erlent

Skutu skotflaug á Japanshaf

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegfarandi í Japan gengur fram hjá sjónvarpi með fréttum af skotflaugarskoti Norður-Kóreu.
Vegfarandi í Japan gengur fram hjá sjónvarpi með fréttum af skotflaugarskoti Norður-Kóreu. AP/Koji Sasahara

Norðurkóreumenn skutu skotflaug í sjóinn undan ströndum Japans í dag. Talið er að flaugin sem var notuð sé hönnuð til að vera skotið á loft frá kafbáti.

Herforingjaráð Suður-Kóreu segist hafa séð skammdræga skotflaugina sem var skotið úr hafinu nærri hafnarborginni Sinpo í austanverðu nágrannaríkinu. Japanska varnarmálaráðuneytið telur hins vegar að tveimur skotflaugum hafi verið skotið frá Norður-Kóreu.

Í Sinpo hafa Norðurkóreumenn smíðað kafbáta sína og þar hafa þeir einnig þróað skotflaugar til þess að skjóta frá þeim, að sögn AP-fréttastofunnar. Erfiðara er að greina skotflaugar sem er skotið frá eldflaugum.

Tilraunir sem Norðurkóreumenn gerðu með skotflaugar frá kafbáti í október árið 2019 benda til þess að þær gætu skotið þeim á nágranna sína í Suður-Kóreu og í Japan.

Stjórnvöld í Pjongjang fullyrtu að skotflaugin væri „öflugasta vopn í heimi“ þegar þau kynntu hana í janúar.

Fréttir af tilraununum nú komu aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Bandaríkjastjórn bauðst til þess að hefja aftur viðræður um kjarnavopnaáætlun Norður-Kóreu.

Refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna banna Norður-Kóreu að  gera tilraunir með skotflaugar og kjarnavopn. SÞ telja skotflaugar hættulegri en stýriflaugar þar sem þær geta borið öflugri sprengjur, eru langdrægari og fljúga hraðar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×