Sport

Biðst afsökunar á eineltinu

Sindri Sverrisson skrifar
Jeanette Ottesen er að gefa út bók þar sem hún segir sína sögu nú þegar sundferlinum er lokið.
Jeanette Ottesen er að gefa út bók þar sem hún segir sína sögu nú þegar sundferlinum er lokið. EPA/PATRICK B. KRAEMER

Sundkonan Jeanette Ottesen viðurkennir í nýútkominni bók sinni að hafa tekið þátt í því að leggja liðsfélaga sinn í danska landsliðinu, Lotte Friis, í einelti um árabil.

Ottesen og Friis eru 33 ára gamlar og unnu hvor um sig til verðlauna á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum.

Orðrómur var uppi um það eftir Ólympíuleikana í London að þær væru óvinkonur en í viðtali við B.T. kváðu þær þann orðróm niður.

Nú hefur Ottesen hins vegar viðurkennt, og beðist afsökunar á, sínum þætti í einelti í garð Friis sem hún segir danska sundhópinn hafa stundað:

„Það voru sérstaklega strákarnir sem voru slæmir, og þeir gerðu grín að Lotte bæði fyrir framan hana og þegar hún heyrði ekki til. Þetta gat verið eitthvað varðandi það að hún væri með stóran rass, að hún væri þyngri en hún ætti að vera, að hún væri feit, hvernig hún synti, fötin sem hún klæddist eða sundgleraugun sem hún notaði,“ skrifaði Ottesen í bókina sína, sem TV 2 Sport hefur birt kafla úr.

Lotte Friis á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Hún vann bronsverðlaun í 800 metra skriðsundi á leikunum í Peking 2008.Getty

Fulltrúi samtaka sem berjast gegn einelti

Ottesen segist hafa tekið þátt í eineltinu með því að segja ekki frá því heldur hlæja frekar að því þegar aðrir stríddu Friis. Nú er Ottesen fulltrúi samtaka sem berjist gegn einelti og segist ekki geta ímyndað sér neitt hræðilegra en að dóttir sín lendi í einelti. Það sé böl sem þurfi að útrýma. Hún viti það núna og einnig að aldrei sé of seint að biðjast afsökunar.

„Ég man ekki hvort ég bað Lotte afsökunar. En ef ég gerði það þá vil ég endurtaka það hérna: Fyrirgefðu Lotte. Ég sé eftir hverju einasta skipti þar sem ég hló eða þér fannst ég vera að taka þátt í eineltinu. Ég harma það. Það var ekki í lagi og ég biðst afsökunar af öllu mínu hjarta,“ skrifaði Ottesen.

Ottesen lagði sundbolinn á hilluna eftir Ólympíuleikana í Tókýó í sumar en Friis hætti árið 2017.

Friis, sem starfar í dag hjá DR, sagðist í samtali við Ekstra Bladet ekki vilja tjá sig um skrif Ottesen fyrr en að hún hefði lesið bókina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×