Erlent

Ó­dæðis­maðurinn vistaður á stofnun: Norð­menn eru í sárum

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Árni Sæberg skrifa
Fórnarlamba árásarinnar er minnst á litlu torgi í Kongsberg.
Fórnarlamba árásarinnar er minnst á litlu torgi í Kongsberg. Stöð 2

Norðmenn eru í sárum eftir ódæðin í fyrradag þegar karlmaður vopnaður boga og örvum myrti fimm manns. Lögregla telur ekki um hryðjuverkaárás að ræða heldur sé árásarmaðurinn andlega veikur. Hann hefur verið vistaður á viðeigandi stofnun.

Mikil skelfing greip um sig í bænum Kongsberg í Noregi í fyrrakvöld þegar Espen Andersen Bråthen myrti fimm manns og særði þrjá til viðbótar.

Árásin er sú mannskæðasta þar í landi frá hryðjuverkaárásinni í Útey árið 2011. Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins en Espen hefur verið vistaður á heilbrigðisstofnun þar sem talið er að hann eigi við andleg veikindi að stríða.

„Hann hefur útskýrt í smáatriðum hvað hann gerði en það er ýmislegt sem segir okkur að hann gangi ekki heill til skógar,“ segir Per Thomas Omholt yfirlögregluþjónn, á blaðamannafundi í dag.

Omholt segir Bråthen vera þreyttan og andlega veikan svo lögreglan geti ekki yfirheyrt hann meira í bili. Hann sé nú vistaður á stofnun með lögregluvakt.

„Hann er öruggur þar inni og getur ekki yfirgefið stofnunina,“ segir Omholt.

Þá segir hann lögregluna vita hvernig atburðarásin var í fyrrakvöld enda stemmi frásögn Bråthens við lýsingar fjölmargra sjónarvotta.

„Þetta er næstum fjarstæðukennt“

Íbúar Kongsberg eru eðli málsins í sárum og hafa þeir í dag lagt leið sína að litlu torgi í miðbænum til að votta virðingu sína.

„Þetta er lítið samfélag svo næstum allir þekkjast. Þetta er mjög skrýtin og sorgleg upplifun fyrir okkur. Þetta er næstum fjarstæðukennt eða óraunverulegt,“ segir Ingebsborg Spangelo, íbúi í Kongsberg.

„Mér þykir þetta mjög sorglegt. Þetta hefði ekki átt að gerast í smábæ eins og Kongsberg,“ segir Paul Penning Hansen, einnig íbúi í Kongsberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×