Erlent

Segir Lennon hafa sundrað Bítlunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul McCartney og John Lennon.
Paul McCartney og John Lennon. Getty

Bítillinn Paul McCartney segist hafa í tæp fimmtíu ár ranglega verið sakaður um að bera ábyrgð á því að hljómsveitin goðsagnakennda hætti. Í nýju viðtali segir hann John Lennon hafa gengið frá Bítlunum.

„John gekk inn í herbergið einn daginn og sagði ég er hættur í Bítlunum. Og hann sagði: „Þetta er spennandi, eins og skilnaður“,“ sagði McCartney við BBC.

Margir hafa haldið fram að McCartney hafi hætt í Bítlunum og bundið enda starfsemi hljómsveitarinnar. Samkvæmt BBC verið vísað í fréttatilkynningu frá honum vegna sólóplötu sem hann gaf út árið 1970. Í þeirri tilkynningu sagðist McCartney ekki sjá fyrir sér að hann og Lennon gætu tekið höndum saman aftur.

Aðspurður hvort Bítlarnir hefðu getað starfað áfram ef Lennon hefði ekki hætt, sagði McCartney svo vera.

„Staðreyndin var sú að John var að hefja nýtt líf með Yoko og hann vildi liggja í rúmi í viku í Amsterdam fyrir frið. Þú gast ekkert sagt við því. Þetta var erfiðasti tími lífs míns,“ sagði McCartney.

Í viðtalinu, sem hefur ekki verið birt enn, sagðist McCartney hafa viljað halda áfram. Bítlarnir hefðu verið líf hans og þeir hefðu staðið sig mjög vel. Þeir hafi allir vitað að Bítlarnir væru búnir en átt erfitt með að sætta sig við það.

Deilur milli McCartney og Allen Klein, sem var þá tiltölulega nýr umboðsmaður Bítlanna, leiddu svo til þess að McCartney höfðaði mál gegn öllum öðrum meðlimum hljómsveitarinnar. Hann vildi tryggja að Klein sæti ekki uppi með réttinn að allri tónlist Bítlanna. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar hefðu verið með Klein í liði.

McCartney sagði hina Bítlana hafa þakkað sér fyrir, mörgum árum seinna, að höfða málið og tryggja eignarrétt þeirra að tónlistinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×