Erlent

Lögregluyfirvöld ekki sannfærð um að Zodiac sé fundinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Teikning af Zodiac-morðingjanum og lögreglumynd af Poste, sem lést árið 2018.
Teikning af Zodiac-morðingjanum og lögreglumynd af Poste, sem lést árið 2018.

Alríkislögreglan og lögregluyfirvöld í Kaliforníu telja ólíklegt að Zodiac-morðinginn svokallaði sé fundinn. Hópur sem rannsakað hefur málið greindi frá því fyrr í vikunni að hafa leyst gátuna en lögregla segist ekki sannfærð.

Case Breakers, sem hefur helgað sig því að ráða óleyst sakamál, byggir niðurstöðu sína meðal annars á teikningum af morðingjanum en maðurinn sem hópurinn telur hafa myrt að minnsta kosti fimm á San Francisco-svæðinu á 7. áratugnum hét Gary Francis Poste og lést árið 2018.

Hópurinn segir að á teikningum af Zodiac, sem unnar voru eftir lýsingum vitna, megi finna ör á einni viðkomandi sem séu afar lík örum sem Poste var með. Þá segist hópurinn hafa fundið nafn Poste í dulmálsbréfum sem morðinginn sendi lögreglu og fjölmiðlum.

Þess ber að geta að það er varla hægt að kalla hópinn áhugamannahóp, þar sem hann samanstendur af einstaklingum sem hafa starfað innan lögreglunnar, hersins og háskólasamfélagsins.

Löggæsluyfirvöld segja sönnunargögnin hins vegar síður en svo beinhörð og þá segir David Oranchak, vefhönnuðurinn sem átti þátt í því að „brjóta“ ein skilaboð Zodiac, ólíklegt að morðinginn hefði falið nafn sitt í skilaboðunum.

Morðinginn hélt því fram á sínum tíma að hann hefði myrt 37 en lögregla telur fórnarlömbin hafa verið sjö, þar af fimm sem voru myrt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×