Erlent

Auðjöfrar festa kaup á dýrum fasteignum í gegnum aflandsfélög

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Auðjöfurinn Philip Green skildi eftir sig sviðna jörð þegar hann losaði sig við verslanakeðjuna BHS. Á sama tíma var eiginkona hans að kaupa fasteignir fyrir milljónir punda í gegnum aflandsfélög.
Auðjöfurinn Philip Green skildi eftir sig sviðna jörð þegar hann losaði sig við verslanakeðjuna BHS. Á sama tíma var eiginkona hans að kaupa fasteignir fyrir milljónir punda í gegnum aflandsfélög. epa/Andrew Gombert

Pandóraskjölin halda áfram að leiða ýmislegt í ljós sem ekki lá fyrir áður, en um er að ræða milljónir skjala frá aflandseyjum víðsvegar um heiminn.

Breska ríkistútvarpið hefur tekið saman lista yfir 1.500 byggingar í Bretlandi sem eru í eigu fólks sem enginn vissi að væru raunverulegu eigendur fasteignanna. 

Talið er að virði þeirra sé meira en fjórir milljarðar punda. 

Í umfjöllun BBC er til að mynda minnst á konungsfjölskylduna í Katar sem keypti tvö dýrustu heimili Lundúnaborga fyrir nokkrum árum í gegnum aflandsfélög og sparaði sér þannig milljarða í skattgreiðslur í Bretlandi. 

Þá virðist eiginkona Philips Green, sem eitt sinn var með ríkari mönnum Bretlands, hafa keypt fjöldan allan af byggingum í London á sama tíma og veldi Greens riðaði til falls. 

Dæmin eru fleiri og vert er að taka fram að það er ekki ólöglegt í Bretlandi að eiga fasteign í gegnum aflandsfélag. Stjórnvöld endurmátu hins vegar nýlega áhættuna af peningaþvætti í fasteignaviðskiptum úr miðlungs í verulega.

Mesta hættan sé þegar ekki er hægt að rekja raunverulega eigendur á bak við viðskiptin.

Frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×