Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Valur 21-32| Valur í bikarúrslit eftir frábæran seinni hálfleik

Andri Már Eggertsson skrifar
Valsmenn voru glaðir í leiks lok
Valsmenn voru glaðir í leiks lok Vísir/Daníel Þór

Íslandsmeistarar Vals eru komnir í bikarúrslit eftir sigur á Aftureldingu 21-32. Dúndur seinni hálfleikur hjá Val gerði það að verkum að þeir unnu sannfærandi ellefu marka sigur og mæta annað hvort Fram eða Stjörnunni í úrslitum Coca Cola bikarsins.

Valsmenn fagna sigrinumVísir/Daníel Þór

Leikurinn byrjaði með mikilli ákefð. Þegar innan við þrjár mínútur voru liðnar af leiknum var búið að gera þrjú mörk. Leikurinn datt heldur mikið niður eftir það og þurftu bæði lið að hafa heldur mikið fyrir hverju marki.

Andri Sigmarsson Scheving, markmaður Aftureldingar, var býsna drjúgur á köflum og áttu Valsarar í erfiðleikum að koma boltanum framhjá honum. Eftir tæplega tuttugu mínútna leik var hann með 45 prósent markvörslu en í hálfleik endaði hann með 41 prósent markvörslu.

Gunnari Magnússyni var nóg boðið á 21. mínútu og tók leikhlé. Valur hafði þá skorað fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins. Leikhlé Gunnars kveikti í hans mönnum sem gerðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu leikinn 9-9.

Undir lok fyrri hálfleik áttu Valsarar góðan sprett þar sem þeir gerðu fjögur mörk á meðan Afturelding gerði aðeins eitt mark. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og minnkaði muninn í 11-13 þegar flautað var til hálfleiks.

Andri Scheving var flottur í fyrri hálfleikVísir/Daníel Þór

Magnús Óli sem hafði gert fimm mörk í fyrri hálfleik byrjaði þann síðari af miklum krafti. Eftir að Magnús Óli var búinn að gera tvö mörk í röð og staðan orðin 14-18 tók Gunnar Magnússon leikhlé.

Leikhlé Gunnars gerði nákvæmlega ekkert fyrir Aftureldingu. Þeir spiluðu verr eftir leikhléið ef eitthvað var. Valur gekk á lagið og spilaði frábærlega á báðum endum vallarins. Þegar tæplega korter var liðið af seinni hálfleik var staðan 15-23 Val í vil og Gunnar neyddist til að taka sitt síðasta leikhlé.

Þegar tæplega tíu mínútur voru eftir af leiknum var Valur tólf mörkum yfir 16-28. Það var því orðið ljóst hvaða lið færi í bikarúrslit og fóru báðir þjálfarnir að gefa leikmönnum sem voru á bekknum mínútur. 

Þrándur Gíslasson Roth fékk beint rautt spjald þegar leikurinn var að klárast. Hann fór þar heldur harkalega í Agnar Smára Jónsson og eftir að dómarar leiksins skoðuðu atvikið í skjánum var rautt spjald niðurstaðan. Leikurinn endaði síðan með stórsigri Vals 21-32.

Þrándur Gíslasson Roth fékk beint rautt spjaldVísir/Daníel Þór

Af hverju vann Valur?

Valsliðið hefur verið að leika frábærlega undanfarið og var seinni hálfleikur liðsins í kvöld Evrópu frammistaða. 

Það gekk allt upp hjá liðinu á báðum endum vallarins. Valur keyrði yfir Aftureldingu á fimmtán  mínútna kafla í seinni hálfleik og kláruðu einfaldlega leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Magnús Óli Magnússon átti stórleik. Hann var markahæsti maður vallarins í kvöld með 10 mörk úr 13 skotum. 

Finnur Ingi Stefánsson var öflugur í hægra horni Vals. Finnur Ingi skoraði 7 mörk úr jafn mörgum skotum.

Hvað gekk illa?

Seinni hálfleikurinn hjá Aftureldingu var afhroð. Sama hvað Gunnar Magnússon reyndi að gera og breyta. Afturelding átti engin svör við því sem Valur gerði. 

Guðmundur Bragi Ástþórsson var áberandi slakur í leiknum. Guðmundur skoraði eitt mark úr sex tilraunum og komst aldrei í takt við leikinn.

Hvað gerist næst?

Valur spilar gegn annað hvort Fram eða Stjörnunni um Coca Cola bikarinn á morgun klukkan 16:00.

Afturelding mætir Selfoss þann 10. október klukkan 19:30 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Árni Bragi: Ég er orðlaus eftir þennan seinni hálfleik

Árni Bragi Eyjólfsson var afar svekktur með ellefu marka tap kvöldsins.

„Ég er orðlaus. Ég trúi ekki að við höfum boðið fólkinu okkar upp á svona seinni hálfleik. Mér fannst við góðir í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn var algjört hrun,“ sagði Árni Bragi.

Eftir flottan fyrri hálfleik ætlaði Afturelding að halda áfram og byggja ofan á það sem gekk vel.

„Við ætluðum að halda áfram að keyra á þá. Við vorum að tapa mikið af boltum sóknarlega allan leikinn sem er afar dýrt gegn Val. Við hættum síðan að hlaupa í seinni hálfleik þegar við töpuðum boltanum.“

Eftir að Gunnar Magnússon hafði tekið tvö leikhlé á stuttum tíma fann Árni Bragi ekki fyrir uppgjöf.

„Ég fann ekki fyrir uppgjöf. Við ætluðum að halda áfram. Seinna leikhléið fórum við að spila einum fleiri sem gekk vel þegar ég var í KA en núna klikkaði það eins og allt annað hjá okkur í seinni hálfleik,“ sagði Árni Bragi svekktur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira