„Ákærði er á flótta,“ sagði talsmaður dómstólsins í bænum Itzehoe í Schleswig-Holstein. „Hún yfirgaf heimili sitt snemma í morgun í leigubíl sem var ekið í átt að lestarstöð.“
Furchner er ákærð fyrir að hafa tekið þátt í hroðaverkum nasista þegar hún var 18 ára gömul og starfaði sem ritari Paul-Werner Hoppe, sem var yfirmaður Stutthof-útrýmingarbúðanna. Furchner er sögð hafa ritað upp fyrirskipanir um aftökur sem Hoppe las upp fyrir hana, á árunum 1943 itl 1945.
Ætlað er að um 11.412 einstaklingar hafi verið myrtir í búðunum á þessum tíma og var Hoppe dæmdur fyrir sinn þátt árið 1955.
Furchner hafði óskað eftir því að réttarhöldin færu fram að henni fjarverandi en sá möguleiki er ekki til í þýskum lögum. Það þýðir sömuleiðis að ekki verður hægt að hefja þau fyrr en Furchner finnst.

Á árum áður var mikið lagt upp úr því að finna og leiða fyrir dóm þá sem spiluðu stórt hlutverk í morðmaskínu nasista en eftir aldamót hafa saksóknarar beint sjónum sínum að þeim sem sinntu minni hlutverkum í útrýmingarbúðunum.
Þannig var Oskar Groening dæmdur fyrir aðild sína árið 2016 en hans hlutverk var að hirða verðmæti af föngunum við komuna í Auschwitz. Þá féll dómur í máli Bruno D. í fyrra en hann starfaði sem vörður í Stutthof.
Bruno var 93 þegar dómurinn féll en réttað var yfir honum í unglingadómstól, þar sem hann var undir lögaldri þegar glæpirnir áttu sér stað. Sömu sögu er að segja um Furchner.