Suga tilkynnti í byrjun mánaðar að hann hugðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður flokksins, og þar með forsætisráðherra, eftir um ár í embætti.
Hinn 64 ára Kishida gegndi embætti utanríkisráðherra landsins á árunum 2012 til 2017, auk þess að hafa setið á þingi frá árinu 1993 fyrir Hiroshima. Hann hafði betur gegn ráðherranum Taro Kono í baráttu um formannsstólinn.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og samstarfsflokkar hans eru með meirihluta á japanska þinginu og eru því allar líkur á að Kishida verði staðfestur í embætti forsætisráðherra. Einnig er búist við að flokkarnir verði með meirihluta eftir þingkosningar sem fram fara í landinu í nóvember.
Ný stefna í efnahagsmálum
Kishida hefur talað fyrir nauðsyn þess að auka hagvöxt og fyrir breytingum á stefnu Japans í efnahagsmálum, þeirri sem Shinzo Abe, sem var forsætisráðherra landsins á árunum 2012 til 2020, lagði grunninn að. Vill Kishida meina að sú stefna þjóni fyrst og fremst stórfyrirtækjum.
Fréttaskýrendur segja að litið sé á Kishida innan Frjálslynda lýðræðisflokksins sem leiðtoga til langs tíma.
Suga tilkynnti 3. september að hann hugðist draga sig í hlé, en hann hafði sætt gagnrýni vegna stefnu stjórnar hans í faraldursmálum og sömuleiðis voru margir Japanir óánægðir með þá ákvörðun að halda Ólympíuleika í miðjum heimsfaraldri.