Innlent

Stöðva þurfti sýningu Níu lífa í 25 mínútur vegna bilunar

Jakob Bjarnar skrifar
Sýningin 9 líf hefur slegið í gegn en á sýningu í gærkvöldi þurfti að stöðva sýninguna vegna bilunar í snúningsbúnaði hringsviðsins.
Sýningin 9 líf hefur slegið í gegn en á sýningu í gærkvöldi þurfti að stöðva sýninguna vegna bilunar í snúningsbúnaði hringsviðsins. Borgarleikhúsið

Gera þurfti 25 mínútna hlé á sýningu Níu lífa vegna bilunar hringsviðsins í Borgarleikhúsinu. Tæknimenn hússins brugðust skjótt og fagmannlega við bilun og björguðu málunum. Tjón var ekki tilfinnanlegt.

Þetta segir Kristín Ögmundsdóttir framkvæmdastjóri Borgarleikhússins en nánar tiltekið kom upp bilun í snúningsbúnaði hringsviðsins.

„Sem betur fer var ekki mikið tjón. En það þurfti að stöðva sýninguna í 25 mínútur. Starfsfólk var fljótt að bregðast við þannig að það var hægt að halda áfram með sýninguna. Engin hætta stafaði af biluninni – enginn í hættu,“ segir Kristín.

Áhorfendur vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið en létu sér þó hvergi bregða. Enda hefur verið gríðarleg stemmning á sýningum en um er að ræða rokksöngleik sem byggir á ferli hins eina sanna Bubba Morthens.

„En þetta eru tæknilegir hlutir sem við viljum hafa í lagi og við erum með reynt og gott starfsfólk sem brást skjótt við,“ segir Kristín.

Sýningin hefur slegið rækilega í gegn og er uppselt meira og minna fram að áramótum. Fimmtán sýningar eru að baki en heimsfaraldurinn og samkomubann á Íslandi kom illa við allt skipulag. En að sögn Kristínar var slíkur áhugi á sýningunni að lítið sem ekkert verið um endurgreiðslu á keyptum miðum í forsölu. Fólk heldur fast um sína miða.

„Við náðum að frumsýna sem var gott því þá vissum við hvað við erum með í höndunum,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×