Bíó og sjónvarp

Ný kynslóð íslenskra leikstjóra á RIFF 2021

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Stilla úr Heartless. Bríet Ísis Elfar og Jóhann Kristófer Stefánsson, betur þekktur sem Joey Christ.
Stilla úr Heartless. Bríet Ísis Elfar og Jóhann Kristófer Stefánsson, betur þekktur sem Joey Christ.

Riff – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fer nú fram í átjánda sinn frá 30. september til 10. október.

Sem fyrr býður hátíðin upp á tvo íslenska stuttmynda flokka og skapar á þann hátt miðlægan sýningar vettvang fyrir grasrótarstarf í íslenskri kvikmyndagerð. Einni stuttmynd sem þykir skara fram úr eru veitt sérstök verðlaun en í dómnefnd hennar sitja Nathalie Mierop, kynningarstjóri kvikmynda í fullri lengd hjá SEE NL, Þóra Björg Clausen, dagskrárstjóri Stöðvar 2 og Anton Máni Svansson, framleiðandi hjá Join Motion Pictures.

Í fyrri stuttmynda flokknum finnast m.a. tvær myndir sem kepptu á kvikmyndahátíðinni í Cannes, sem er fágætt fyrir íslenskar myndir. Annars vegar er það stuttmyndin Frie Mænd eða Frjálsir menn, útskriftarmynd Óskar Kristins Vignissonar úr Konunglega danska kvikmyndaskólanum, sem margir bíða spenntir eftir og fjallar um vináttu tveggja karlmanna sem vinna í fiskvinnslu, og hins vegar Céu De Agosto eða Ágústhiminn eftir brasilísku kvikmyndagerðarkonuna Jasmin Tenucci, en myndin er brasilísk-íslensk samframleiðsla og greinir frá hjúkrunarfræðingi sem leitar á náðir hvítasunnusöfnuðar á sautjánda degi skógarbruna í Amazon-frumskóginum.

Free Men

Eldingar eins og við er fyrsta leikstjórnarverkefni Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttir, einnig þekkt sem tónlistarkonan Kira Kira, sem mun flytja tónlist í tengslum við sýningu myndarinnar 2. október.

Frenjan eftir Þóreyju Mjallhvíti H. Ómarsdóttir segir frá konu á miðjum aldri sem verður sífellt önugri er kúahjörð tekur yfir borgina en hún er sú eina sem tekur eftir skepnunum, Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með aðalhlutverk.

Poppstjörnurnar Jóhann Kristófer Stéfansson (Joey Christ) og Bríet fara með aðalhlutverkin í Egginu, ástarsögu í framtíðarsamfélagi þar sem hverjum og einum er skipaður nýr maki af handahófi á sjö ára fresti, en myndinni er leikstýrt af Hauki Björgvinssyni.

Klettur aldanna eftir Eron Sheean greinir frá hermanni á flótta sem rekst á talandi klett og skartar Tómasi Lemarquis og Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverkum. Þessi stuttmynda flokkur er virkilega sterkur í ár.

We The Lightnings

Hinn flokkurinn er skipaður nema myndum og koma þær úr ýmsum áttum. Þetta eru Round 0 eftir Soniu L. Shiavone, Tveir fuglar eftir Önnu Karen Eyjólfsdóttur, Eftirsjón eftir Björn Rúnarsson, Hik eftir Ingibjörgu Jenný Jóhannesdóttur og Elín Pálsdóttur, Sólarupprás eftir Sigrúnu Mathiesen og Síðasti séns eftir Ástu Sól Kristjánsdóttur.

Sýningarnar eru eftirfarandi:

Íslenskar stuttmyndir

  • 02.10 Bíó Paradís 1 kl. 12.00 + Q&A
  • 10.10 Bíó Paradís 1 kl. 13.00

Íslenskar nemastuttmyndir

  • 03.10 Bíó Paradís 1 kl 10.45 + Q&A
  • 07.10 Bíó Paradís 2 kl. 15.00

Einnig má þess geta að fimm íslenskar stuttmyndir eru sýndar á hátíðinni í öðrum flokkum.

Ólafur Arnalds: Er við fæðumst sýnir lifandi flutning á tónlist Ólafs og skyggnist í hugarheim tónskáldsins þar sem einstakrar upplifunar af einingu náttúru, vitundar og listar er notið. Ólafur leikstýrir myndinni ásamt Vincent Moon.

When We Are Born

Horfin borg, í leikstjórn Magnúsar Andersen, er óður til Reykjavíkur þá og nú, innblásinn af samnefndu lagi Úlfs Eldjárns. Þessar tvær myndir eru hluti af tónlistarmyndaflokki hátíðarinnar eða Cinema Beats á ensku.

Tvær íslenskar stuttmyndir keppa um Gullna Eggið, þar sem stuttmyndir þátttakenda í kvikmyndasmiðju hátíðarinnar, Talent Lab, eru sýndar. Þetta eru myndirnar Í gegnum stórmarkaðinn í fimm hlutum eftir Önnu-Mariu Jóakimsdóttir Hutri, dansmynd sem kjarnar hversdags raunir nútíma fjölskyldunnar við vikulega matarsöfnun, og Panikkprósi eftir Ernu Mist sem er ljóðrænn vitnisburður um einangrun, firringu og þýðingu þess að týnast í félagsskap við sjálfan sig.

Hundred Years of Revolution

Síðast en ekki síst er það stuttheimildarmyndin MÍR: Byltingin lengi lifi eftir Hauk Hallsson, um hana segir: „Félagið MÍR var stofnað árið 1950 í þeim tilgangi að efla menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna. Enn þann dag í dag heldur félagið lífi í byltingunni með vikulegum sýningum á gömlum sovéskum kvikmyndum.“ Myndin er sýnd sem hluti af „sovéskri tvennu“ með myndinni Village Detective: A Song Cycle eftir Bill Morrison, og er hluti af heimildarmynda dagskrá hátíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.