Tvær skoðanakannanir sem voru birtar í Þýskalandi í dag benda til að Sósíaldemókratar hafi misst forskotið sem þeir höfðu á Kristilega demókrata, flokk Merkel. Í könnun Civey fyrir fréttastofu ZDF mælist fylgi Sósíaldemókrata 25% en fylgi Kristilegra demókrata hafi hækkað nokkuð, upp í 23%. Fréttastofa Guardian greinir frá.
Kosningakönnun Allensbach fyrir fréttastofu Frankfurter Allgemeine Zeitung bendir til að munurinn sé enn minni, Sósíaldemókratar með 26% fylgi og Kristilegir demókratar með 25% fylgi.
Undanfarnar vikur hafa Kristilegir demókratar varla komist með tærnar þar sem Sósíaldemókratar hafa haft hælana. Það hefur hins vegar breyst þessa síðustu viku fyrir kosningar og virðist forskotið nú nær horfið.
Þriggja flokka ríkisstjórn talin líklegust
Það er því alveg í lausu lofti hver muni bera sigur úr bítum, og kannski mikilvægara: Hver muni taka við kanslarakeflinu af Angelu Merkel, sem hefur sinnt embættinu undanfarin sextán ár. Þá eru uppi ýmsar kenningar um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf og hvaða flokkar fái hvaða ráðuneyti.
Flokkur græningja mælist nú með 16% fylgi, Frjálsir demókratar með 10,5% til 12% fylgi. Hægriþjóðernisflokkurinn Valkostir fyrir Þýskaland (þ. Alternativ für Deutschland) mælist með 10% fylgi og Róttæki vinstri flokkurinn Die Linke með 5% til 6% fylgi, sem þýðir að hann er í fallhættu.
Þó virðist af nýjustu skoðanakönnunum sem þýskir kjósendur séu nokkuð ákveðnir í því hvern þeir vilja sem kanslara. Þegar kjósendur voru spurðir að því svöruðu 47% að þeir vildu Olaf Scholz, frambjóðanda Sósíaldemókrata, sem næsta kanslara. 20% sögðust vilja Armin Laschet, frambjóðanda Kristilegra demókrata, og 16% sögðust vilja Annalenu Baerbock, frambjóðanda Græningja.
Ljóst er að ríkisstjórnin verði að vera skipuð minnst tveimur flokkum og er þriggja flokka stjórn talin líklegust af spekúlöntum. Það væri fyrsta sinn sem þrír flokkar sameinuðust í ríkisstjórn Þýskalands frá upphafi. Í frétt Guardian segir að það bendi til að þýsk stjórnmál séu klofin, eins og eigi sér stað víða annars staðar í Evrópu, og eflaust margir Íslendingar tengja við.