Menning

Býður ekki upp á vel­líðunarnasl fyrir hræddar sálir

Jakob Bjarnar skrifar
Ný bók eftir Guðna Elísson prófessor, Ljósgildran, sætir tíðindum. Hún er marglaga, fyndin og grimm í senn. En þar er morkið menningarástand landsins tekið til bæna.
Ný bók eftir Guðna Elísson prófessor, Ljósgildran, sætir tíðindum. Hún er marglaga, fyndin og grimm í senn. En þar er morkið menningarástand landsins tekið til bæna. vísir/vilhelm

Guðni Elísson prófessor í bókmenntafræði hefur sent frá sér skáldsögu og því er haldið fram hér fullum fetum að um stórtíðindi sé að ræða. Bókin er doðrantur, 800 síður og marglaga. Um leið og þetta er algjör veisla fyrir bókmenntafræðinga; þaulhugsuð bygging og ótal skírskotanir til bókmenntasögunnar er hún eins og Nafn Rósarinnar eftir Umberto Eco spennusaga á yfirborðinu.

Bókin er grimm að því leyti til að Guðni tekur þjóðarsálina til bæna og beinir einkum spjótum sínum að pólitíkinni og þá ekki síður bókmenntunum sjálfum; menningarástandinu. Rithöfundar og útgefendur fá það óþvegið og Guðni gerir ekki ráð fyrir því að verða neinn sérstakur augnakarl hjá bókmenntaelítu landsins eftir að hafa dregið hana sundur og saman í nöpru háði. Og strax, áður en bókin var komin út, hefur hún valdið usla. Mark Zuckerberg og hans menn hjá Facebook stöðvuðu auglýsingar útgáfunnar. Hvað er það?

„Já, Lesstofunni var bannað að auglýsa bókina vegna þess að í auglýsingunum var fjallað um skáldaðar persónur í raunverulegum íslenskum stjórnmálaflokkum. Hjá þessu ágæta fyrirtæki telst það til áróðurs að nefna stjórnmálaflokka í skáldverkum vikurnar fyrir kosningar – og þá skiptir litlu máli hvort þetta eru blindir/alsjáandi algóritmar eða ekki, kaflarnir eru ritskoðaðir og það kallar á heljarinnar vinnu af fá því aflétt ef það er þá yfirhöfuð hægt,“ segir Guðni í samtali við blaðamann Vísis.

Prófessorinn útskýrir að Lesstofan sé lítið forlag sem hefur ekki efni á að auglýsa í dýrum prentmiðlum og því þrengi þetta talsvert að möguleikum fyrirtækisins að koma verkum sínum á framfæri.

„Því að færslur sem eru ekki kostaðar fá auðvitað nánast enga dreifingu í samanburði við þær sem eru kostaðar. Fésbókin spilar reyndar stóra rullu í sögunni minni. Hún er nánast eins og kórus í grískum harmleik og það þarf reyndar ekki mikið ímyndunarafl til þess að sjá hvernig það er býsna raunsæisleg sýn á hlutverk þessa skaðlega fyrirbæris í samtímanum. En það er líka fremur kyndugt að fyrirtækið sem kom Donald Trump í Hvíta Húsið og leitt hefur saman ofstækisfólk um allan heim skuli vera að skipta sér af bókinni minni.“

Þegar sígarettan var fjarlægð úr munni Bubba á auglýsingum nokkrum vikum fyrir frumsýninguna á leikverkinu Níu lífum í Borgarleikhúsinu ræddu margir um ritskoðun, rifjar Guðni upp.

„En það velti enginn upp spurningunni hvers vegna til dæmis forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Seðlabanki Íslands, lögregluembættin á Íslandi og Landsspítalinn eru öll á Facebook og hvort það sé í lagi að afhenda erlendu einkafyrirtæki án nokkurrar umræðu allt þetta miðlunar- og upplýsingarvald. 

Og við gerum það vegna þess að þjónustan er „ókeypis“ og bæði þægileg og handhæg.“

Facebook fjársjóður og fjandi

Ekki þarf að fjölyrða um áhrif netsins og samfélagsmiðla á samfélagið allt og sjálft lýðræðið. Og fyrirbæri eins og fjölmiðlar eru í klemmu því öll lykilhugtök sem reist eru á því að það sé fjölmiðla að ákvarða hvað heyrir til opinberrar birtingar en er fráleitt lengur eru í lausu lofti. En hvernig metur þú áhrif netvæðingarinnar á bókmenntirnar? Sögur hafa alltaf ferðast um og rithöfundurinn veiðir þær eftir atvikum, skrúfar saman og setur í samhengi. Gerir að sínum. Breytingin er hins vegar sú að nú birtast þessar sögur opinberlega sem breytir leiknum.

„Fésbókin er í þessum skilningi fjársjóður. Rithöfundurinn getur setið inni í eldhúsi á þúsund heimilum um land allt og bara hlustað. En það er að sama skapi mikilvægt að það sem höfundar heyra fari í gegnum einhvers konar umbreytingarferli – því að það er aðeins hægt að fanga með því að breyta. 

Svo einkennilega vildi til að Facebook greip í taumana þegar lítið forlag sem vildi auglýsa bók eftir prófessor við Háskóla Íslands.vísir/vilhelm

Höfundar geta öðlast innsæi með því að fylgjast með samfélagsmiðlunum en ég held að það fylgi því oft ákveðinn fórnarkostnaður að vera virkur þar líka. Það er erfitt að vera sjálfstæður og eiga mörg þúsund vini sem þú prufukeyrir skoðanir þínar á – meðvitað og ómeðvitað.“

Hvers vegna ertu að skrifa þessa bók?

„Hún leitaði einfaldlega á mig. Ég er talsvert einn og þá spinn ég stundum sögur í höfðinu. Þetta er saga númer tvö en ég á fjórar aðrar nokkuð vel mótaðar þótt einhverjar þeirra sé aðeins að finna í punktum. Þessi saga á sér langan aðdraganda. Fyrsta hugmyndin að henni kom haustið 2000 og ég vann að frumdrögunum að forvera þessarar sögu frá 2002/2003 fram á vor 2006 þegar ég lagði hana frá mér. Þá var þetta saga um íslenska efnahagsundrið, bankamennina og athafnagleðina og svo átti sagan að enda á barmi mikils efnahagshruns. Þegar allt fór á hliðina haustið 2008 var það fyrsta sem ég hugsaði að bankamennirnir væru búnir að eyðileggja söguna mína. Svona getur maður verið smár. Allt stendur í ljósum logum og hugurinn er á einhverri bók,“ segir Guðni og hlífir sér hvergi.

Lesandinn verður að merkja hjartslátt sögunnar

Guðni segir svo frá að hrunið hafi tekið kraftinn úr þeirri tilteknu sögu og hann vildi ekkert með hana hafa.

„Svo tók ég hana aftur upp á nýársdag 2016 og byrjaði að skrifa. Strax á öðrum eða þriðja degi sá ég að það var ekkert sem ég vildi halda í úr fyrra verkinu þannig að ég fleygði öllu út nema grunnstrúktúrnum – hélt reyndar líka í eina af upphafstilvitnunina í Stendhal og tvær litlar senur í 12. og 14. kafla. 

Sagan er skrifuð beint inn í samtímann. Guðni segir nauðsynilegt að reyna að grípa hann og greina með þeirri tækni sem skáldsagan ein býr yfir.vísir/vilhelm

Fléttan er samt sú sama og ýmislegt í persónugalleríinu er hægt að rekja aftur í fyrri söguna þótt aukapersónur séu nú í einhverjum tilvikum orðnar fyrirferðarmeiri og aðrar persónur hafi verið sameinaðar eða felldar út. Ég er enn að skrifa breiða samfélagssögu og reyni að fanga ákveðin element í íslenskum samtíma sem er svo óendanlega forvitnilegur. Þetta er umbreytingatími en nú víkka ég sjónarhornið. Það er svo margt að gerast sem mér þótti mikilvægt að skjalfesta með þeirri tækni sem skáldsagan ein býður upp á.“

Bókin er mikil, heilar 800 síður… þú hefur talið þig þurfa þetta pláss; er þér svona mikið niðri fyrir?

„Þetta er samfélagssaga sem fjallar um margar persónur og í henni reyni ég að fanga ákveðin grunnelement úr þessum umbrotatíma sem við lifum öll á. Ég hefði ekki getað sagt þessa sögu öðruvísi en ég er til dæmis kominn langt með aðra sögu sem verður að segja knappt. Efnið kallar á það og úrvinnslan líka. Ég veit svo eiginlega ekki hvernig ég á að svara þér um hvort mér liggi mikið á hjarta. Verður lesandinn ekki að skera úr um það sjálfur? Hann þarf að merkja hjartsláttinn í sögunni, sé hann einhvers staðar að finna. En væri ákveðin ófyrirleitni falin í því að bjóða lesanda upp á 800 síðna ferðalag og gera ekkert til þess að stytta honum stundir á leiðinni. Það reyni ég því eftir fremsta megni að gera eftir öllum þeim leiðum sem mér eru tiltækar, en þó ekki á kostnað þess að koma viðfangsefninu á framfæri. Ég vil ekki orða þetta skýrar.“

Tannlausir prófessorar sem naga allt berum gómum

En að öðru, þér og stöðu þinni. Þú ert prófessor, hefur fengist við að fjalla um bækur í áratugi en sendir nú frá þér skáldverk. Hver á að gæta varðanna? Er þetta ekki frekar sérstök staða? Hvernig viðtökum býstu við eða vonast eftir? Má vænta meiri pressu vegna stöðu þinnar?

„Ég býst í sjálfu sér ekki við neinu. Ég veit að þetta er um margt óvenjuleg skáldsaga í samhengi íslenskrar bókmenntasögu og það getur stýrt viðtökunum á henni á alls kyns vegu en ég velti því samt ekki of mikið fyrir mér. Ég skrifaði hana fyrst og fremst fyrir sjálfan mig því að ég var eini lesandi hennar í mörg ár. Og mér fannst gaman að skrifa hana. Það var alltaf aðalatriðið og er það ennþá. Hún stytti mér stundir.“

En hvað með stöðu þína sem greinanda sem nú hefur stokkið yfir borðið og situr nú hinum megin þess?

„Ég veit svo sem ekki hversu góðir varðhundar prófessorar eru. Eru þeir ekki flestir tannlausir og naga í allt með berum gómum? 

Ég er ekkert viss um að það þurfi að gæta þeirra. En ég er nú ekki heldur eini bókmenntaprófessorinn á landinu. Og svo sér tíminn um afganginn því að hann sem tekur allt sem ekki skiptir lengur máli. Ég held samt að það skaði ekki höfunda að lesa mikið og þar hjálpar sérmenntunin mér og stundum gengi ég jafnvel svo langt að trúa því að það geti verið kostur að hafa flett bók áður en maður skrifar slíka sjálfur. Þetta þýðir þó ekki að gráður séu endilega prýði þegar kemur að skáldskap. Margar afskaplega vondar skáldsögur hafa verið skrifaðar af prófessorum í faginu.“

Grimm saga á ýmsa vegu

Guðni talar um að bókarskrifin hafi öðrum þræði verið til að stytta sér stundir. En textinn er grimmur og fyndinn í senn. Þetta er karníval. Auðvitað er ekki vert að rugla saman höfundi, sögumanni og persónum. En þarna má finna ræður sem fjalla um nöturlega lítilþægt menningarástand:

„Íslenskar bókmenntir eru vellíðunarnasl fyrir hræddar sálir sem aðeins vilja bragðgóða vöru, eitthvað sem er sætt undir tönn og rennur án fyrirhafnar í gegnum meltingarkerfið.“ (Bls. 369).

Bara svo eitt lítið dæmi sé nefnt. Þú beinir spjótum með óvægnum hætti að rithöfundum og útgefendum víða í bókinni. Er ástandið þetta bágborið? Er Ljósgildran að einhverju leyti ákall um að skáldskapur skipti máli (ef við gefum okkur að svo sé ekki)? Hafa listamenn tapað erindi sínu; er rödd þeirra mjóróma og falskt hvísl úti í horni?

„Já, samfélagslegi hlutinn er grimmur á allt annan hátt en sá hluti sögunnar sem snýr til dæmis að einkalífi persónanna. Og hann er líka eins og þú bendir á karnivalískur. Það má halda því fram að sá hluti sögunnar sem snýr að hinum opinbera lífi einkennist af menippískri satíru með flestu því sem henni fylgir en ég man til dæmis eftir doktorsritgerð þar sem hún er flokkuð á 21 ólíka vegu. 

Það sem skiptir höfuðmáli í mínum huga þegar verið er að vinna innan satírunnar er að stíga aldrei fram sem höfundur og leggja línurnar. 

Maður á að skila túlkunina eftir í höndum lesandans. Og af þeim sökum á söguhöfundurinn líka að halda sig mestmegnis til hlés,“ segir Guðni. Svo við greinum hann frá höfundinum.

Vill forðast predikanir

Með ýtni er blaðamaður að reyna að setja Guðna í þá ósanngjörnu stöðu að greina eigið verk. En verður þó varla kápan úr því klæðinu. Prófessorinn segir þó að því megi halda fram að í Ljósgildrunni búi fljótandi vitundarmiðja sem fylgi þeim persónum sem fyrirferðarmestar eru í hverjum kafla eða undirkafla og að hún miðli sjónarhorni þeirra.

Guðni segist vilja forðast predikanir en þrætir ekki fyrir það að hugsanlega skíni skoðanir höfundarins í gegn á stöku stað.vísir/vilhelm

„Hver rödd talar á sínum forsendum sem skilja verður í samhengi sögunnar og draga af því einhverjar ályktanir. Allar þær spurningar sem þú setur þarna fram skipta nefnilega máli og lesandi þarf að spyrja sig þeirra sjálfur. Ef ég svaraði þeim hér hefði ég allt eins getað gert það í sögunni sjálfri og þá hefði það verið allt önnur saga. Og þá hefði ég verið að prédika sem ég vildi forðast að gera – þótt stundum skíni sýn höfundarins líklega í gegn. En svörin við spurningunum þínum yrðu alltaf flókin. Þau verða að vera það vegna þess að þetta eru stórar og áleitnar spurningar.“

Guðni heldur áfram og segir að ef hann væri að skrifa um íslenskt menningarástand sem fræðimaður hefði hann þurft að leggja fram kenningu og styðja hana í svo og svo mörgum liðum með alls kyns dæmum.

„Hér get ég bara birt flókið átakasvið sem er mótað af alls kyns ytri hvötum sem lúta dramatískum lögmálum og um leið verða þessir ytri hvatar að viðfangsefni sögunnar en þeir skipta líka máli. Þeir geta tilheyrt víðasta viðfangsefni frásagnarinnar, þeim ýmsu stórsögum sem hún tekur til greiningar, en þeir geta líka átt uppruna sinn á hinum endanum í sálarlífi sögupersónanna og allt þar á milli. 

Sálarlíf persónanna er á þennan hátt einn af lyklunum sem þarf að nota til þess að greina fullyrðingar þeirra en þá vaknar líka sú spurning hvaða kerfi greinandinn ætlar að beita. 

Og þá gæti ég verið að vinna innan jungískrar sálfræði, freudískrar eða hugrænnar svo aðeins þrjú dæmi séu tekin.“

Bókmenntir mega ekki hverfast um litlar og stórar lygar

Eins og áður sagði vísar verkið til ótal verka heimsbókmenntanna, þarna er fantasía sem minnir þannig að einhverju leyti á Meistarann og Margaritu eftir Búlgakov en er um leið ádrepa á morkið menningarástand. Og þó ósanngjarnt sé að spyrja höfund, vilji maður bera virðingu fyrir frásagnarhættinum, verður ekki hjá því komist að staldra eilítið viðþað atriði. Lýsir bókin ekki menningarástandi í öngstræti og má ekki finna þarna ákall, ósk um að rithöfundar og bókmenntir öðlist rödd á ný?

„Góðar spurningar kalla stundum á vond svör.“

Ók?

„Þetta er líka svo umfangsmikil og flókin spurning að kannski er einfaldast að svara henni með því að spyrja á móti þessarar sem þú sjálfur gerir ráð fyrir. Hafa bókmenntirnar einhvern tíma verið umbreytingarafl í samfélaginu? Ég er ekki viss. 

Guðni segir frumskyldu höfundarins vera þá að skrifa þannig að hann verði skotinn í næstu byltingu.vísir/vilhelm

En þær mega heldur ekki snúast um stóru og smáu lygina. Blinda trúna á manninn og þörfina til að þjónkast þeim sem ráða hverju sinni. Ég er á þeirri skoðun að það sé frumskylda höfundarins að skrifa þannig að hann verði skotinn í hverri byltingu. Það sé réttast að skjóta hann, bara svona til vonar og vara – og það þótt hann hafi aldrei lifað pólitísku lífi. Því að höfundar geta ögrað eftir fleiri leiðum en þeim pólitísku ef þeir gera sitt besta til þess að miðla veruleikanum eins og hann er, í allri sinni fegurð og ljótleika. Og hér er ég ekki að ræða mikilvægi þess að höfundar séu dónalegir. Ég er að tala um sundrandi greiningu sem er unnin af virðingu fyrir djúpstæðum gildum.“

Pikkfastur í allskyns rullum

Gott og vel. Í fyrri samtölum okkar hefur þú talað um gildi þess að þú sért óháður, bæði frá flokkspólitískum línum sem og ráðandi öflum í menningarlífinu. Hvers vegna er það mikilvægt?

„Ef ég segi einhvers staðar að ég sé óháður fer ég með fleipur. Orðið sjálft virðist á íslensku líka helst dregið upp þegar tala á um stjórnmálamenn sem hafa hrökklast út úr sínum gamla flokki og stofnað annan utan um brothætta sjálfsmyndina. Við erum öll bundin samfélaginu eftir ótal leiðum. Sumt erum við okkur meðvituð um, annað ekki. Og svo er maður alltaf pikkfastur í allskyns rullum sem hrökkva sjálfkrafa í gang, til dæmis þegar maður gefur út bók. Ég geri grín að alls kyns hlutum í Ljósgildrunni og hér væri nærtækast að nefna kaflann um höfundarljósmyndina þar sem skáldið reynir að líta út sem gáfulegast í augum lesenda sinna og svo er ég skyndilega staddur hérna í miðju viðtali og ljósmyndir af mér allt í kring, þar sem ég mæni út og suður og reyni að láta eins og ég sé ekki að hugsa um það hvað ég ætli að borða í hádeginu.“

Og það er þá við hæfi að birta eina mynd nákvæmlega hér sem Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis tók af Guðna í tilefni af þessu viðtali.

Guðni stillir sér upp fyrir ljósmyndara Vísis og veltir því fyrir sér hvað hann eigi að fá sér að borða í hádeginu.vísir/vilhelm

„En hvað er til ráða? Ég gæti fylgt þeirri línu sem sögupersónan H.M.S. Hermann leggur þegar hann ræðir höfundarmyndina og sett útgefandann minn á hausinn með því að sleppa því að fara í viðtöl og læsa svo á eftir sjálfum mér um leið og ég dreg mig inn fyrir hauskúpuna. Ég gæti líka haldið áfram að ræða sviðsetninguna sem felst í öllum þessum ágætu myndum af mér þar sem ég mæni út og suður og reyni að sannfæra lesandann um að ég sé gáfulegur líka. En auðveldast væri samt að hunsa bara allt sem fanturinn H.M.S. Hermann segir um íslenskt menningarlíf og láta eins og það sé helbert þvæla. Hann er jú þrjótur og er eitthvað nokkru sinni að marka það sem þrjótar láta út úr sér um lífið og tilveruna.“

Vill ekki búa til siðferðilega leiðarhnoðu

Guðni hafnar því þannig að vera með öllu óháður en hann reynir engu að síður að líta á umhverfi sitt eftir krítískum leiðum.

„Þetta er auðvitað lykilatriði þegar taka á tiltekið viðfangsefni til fræðilegrar greiningar en fræðigreinin er miklu takmarkaðra tæki en skáldsagan. Í Ljósgildrunni er vitundarmiðjan fljótandi sem þýðir að lesandinn flækist á milli sjónarhorna og verður að vega og meta gildi þess sem er sagt hverju sinni. Og mér líkar sú tilhugsun illa að búa til einhvers konar siðferðilega leiðarhnoðu sem lesandinn geti haldið sér í. Meira að segja þegar mig blóðlangar til þess að predika.“

Eins og áður segir er vísað í heimsbókmenntirnar vinstri hægri, teóríur og meðal annarra er fræðimaðurinn Roland Barthes nefndur til sögunnar. Sem segir einhvers staðar að bækur byggi á bókum og þar gegni bókmenntafræðingar lykilhlutverki: Þú hlýtur að sjá Ljósgildruna sem púsl í stærra samhengi? Hvernig ber að skilgreina hana? (Og enn geri ég mér grein fyrir því að þetta er frekjuleg spurning en það helgast jú að nokkru leyti að sérstakri stöðu þinni bókmenntafræðingur/höfundur.)

„Mér finnst  ósköp gott að hvíla í öllum þessum textum sem hafa mótað mig sem lesanda síðustu 50 árin eða svo. Í Ljósgildrunni er mér samt umhugað um lestur á fleiri plönum en því bókmenntalega. 

Bygging Ljósgildrunnar er þaulhugsuð. Og komi lesandi að verkinu aftur eftir að hafa lesið það til enda kemur hann að allt öðru verki en við fyrsta lestur.vísir/vilhelm

Vissulega eru persónur verksins stöðugt að lesa eitthvað til þess að auka á gleði sína eða vansæld og textarnir sem þessar persónur lesa spegla þær eftir ýmsum leiðum eða þjóna öðrum tilgangi, til dæmis eru þeir notaðir til þess að stýra öðrum. En við getum líka skoðað stórsögurnar sem stýra heilum samfélögum, hugmyndafræðina sem oftast er trúarbrögð þegar að er gáð. Ég segi það annars staðar að ég hafi mikinn áhuga á þeirri samræðu sem á sér stað á milli eldri og nýrri verka.“

Stoltastur af byggingu verksins

Guðni segist þannig vilja draga upp á yfirborðið hvernig texti er búinn til úr textum.

„Ég vil minna á mikilvægi þess að höfundar séu duglegir að lesa. Og einnig að benda á þetta flókna textalega samhengi sem hvílir undir öllum alvöru frásagnarstrúktúrum. En um leið er ég að spyrja hvað gerist þegar höfundur flytur texta áfram og gerir hann að sínum? Því umbreytingarkrafturinn hlýtur að skipta máli hérna ætli maður ekki að verða endurtekningunni að bráð.“

Þá segir Guðni að sér hafi þótt forvitnilegt að flytja erlenda textastrúktúra sem lítið hafa verið notaðir hér á landi inn í samhengi íslenskrar frásagnarhefðar. 

„Sá lesandi Ljósgildrunnar sem er fullur af nægu sjálfshatri til þess að hefja lesturinn á nýjan leik þegar 800 síðurnar eru að baki – og ég er það lánssamur að nokkrir lesendur eru búnir að lesa bókina oftar en einu sinni – kemur þannig að gjörólíku verki. Hann verður sér meðvitaðri um strúktúrana – það sem leynist falið undir yfirborðinu því að jafnvel óreiðan í verkinu er skipulögð. Í stuttu máli sagt er ég stoltastur af byggingu verksins en þar bræði ég saman ýmsar eldri hefðir og bý til eitthvað sem ég hef að minnsta kosti ekki séð áður í skáldsögu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×